Tómas í knattspyrnu

Tómas spilaði sinn fyrsta knattspyrnuleik í dag með græna CESA-soccer liðinu. Það var reyndar smá vesen með að finna út hvaða liði hann ætti að tilheyra og við fengum það ekki staðfest fyrr en seint í gær, sem merkti að hann hafði ekki mætt á neina æfingu fyrir fyrsta leikinn.

Liðinu hans var skipt niður á þrjá velli og spilað þrjú og þrjú á lítil mörk. Þetta leit ekki neitt gífurlega vel út í fyrstu, Tómas sem hafði ekki mætt á neina æfingu og tvær stelpur sem virtust ekki mjög áhugasamar og varamaðurinn þeirra neitaði að vera með. Gula liðið var með þrjá varamenn og ákveðin þjálfara sem reyndi að skipa þeim á svæði á vellinum. Leikurinn byrjaði fremur hægt, þrír grænir krakkar og þrír gulir hlupu þangað sem blár boltinn var hverju sinni og spörkuðu í boltann fremur stefnulaust.

Eftir c.a. tvær mínútur ákvað Tómas síðan að taka leikinn í sínar hendur, náði boltanum sólaði í rólegheitunum alla leikmenn gula liðsins nokkrum sinnum, enda fór hann sér engu óðslega og gekk loksins með boltann inn í mark andstæðinganna. Hann fagnaði árangrinum nokkuð og uppskar mikið hrós enda staðan orðin 1-0. Tómas lét hins vegar ekki þar við sitja, en endurtók leikinn aftur og aftur þar til staðan var orðin líklega um 8-1 fyrir Tómasi og stelpunum tveimur, Þá fór þjálfari hins liðsins fram á það við dómarann að bæta við einum leikmanni í liðið sitt, enda fannst foreldrum gulaliðsmanna fremur leiðinlegt að horfa upp á börnin sín í fyrsta kappleiknum sínum, tapa með þessum hætti. Tómasi hins vegar munaði ekki mikið um að sóla fram hjá einum extra leikmanni og þegar staðan var 10-1, ákvað ég að biðja þjálfara Tómasar um að skipta Tómasi út af og notast við varamann úr græna liðinu sem var á öðrum velli. Við það jafnaðist leikurinn á upphaflega vellinum, en Tómas fékk tækifæri annars staðar.

Það var aðeins meiri mótstaða á nýja vellinum, en Tómas náði samt að setja mark sitt á þann völl einu sinni eða tvisvar, þær fáu mínútur sem hann spilaði þar. Reyndar þurfti dómarinn að stöðva leik einu sinni þar sem honum þótti Tómas helst til ákveðinn gagnvart liðsmanni gula liðsins sem lá eftir á grasinu, en Tómas sýndi mjög góða varnartakta, skýldi boltanum vel og náði ítrekað að stíga sóknarmenn út. Þá átti Tómas ágæta stoðsendingu á liðsfélaga sem skoraði eftir að Tómas hafði náð boltanum af sóknarmanni við hliðarlínu, með því að stíga milli hans og boltans og snúa sér snöggt við á punktinum.

Þá nefndi eitt foreldri nefndi sérstaklega við mig hvernig Tómas hefði hlaupið að félögum sínum í seinni leiknum og „high five-að“ þá þegar þeir skoruðu og sýnt þannig „great sportmanship og team spirit“ sem væri frekar óalgengt í 5-6 ára deildinni.

Alla vega, það er óhætt að segja að innkoma Tómasar á knattspyrnusenuna hafi verið fremur skemmtileg og hann hafi sýnt óvænta takta sem fram til þessa hafa að mestu verið óþekktir.

2 thoughts on “Tómas í knattspyrnu”

  1. Sammála Baldri! Get ekki hætt að brosa

    Segðu þjálfaranum að tvö stórlið úr Carlsbergdeildinni séu að fylgjast með árangri kappans!

Lokað er á athugasemdir.