Leikhúsvinna og fiðlutímar

Undanfarnar færslur á hrafnar.net hafa að mestu verið tileinkaðar Tómasi enda svo sem mikið í gangi hjá drengnum. Það er svo sem ekki rólegt kringum Önnu heldur. Hún lauk nýverið við að skrifa skáldsögu ásamt Emmu vinkonu sinni sem þær hafa verið að vinna að í allt sumar.

Þá er Anna virk í leikhússtarfi Bexley skólanna, en þar verða settar upp tvær sýningar á haustmisseri, annars vegar Lísa í Undralandi og hins vegar verkið Davíð og Lísa. Anna er hluti af því sem er kallað „crew“ en þau sjá um allt baksviðs, búninga, sviðsmyndagerð, tæknimál og hvað annað sem tilfellur.

Anna er auk þess í strengjasveit skólans og byrjaði nú í haust í einkatímum á fiðlu hjá kennara sem flutti hingað á stúdentagarðanna í sumar.

Í tengslum við skólann þá hefur Anna tekið að sér að aðstoða við símavörslu og upplýsingar á skrifstofu skólans í matartímum og frímínútum nokkrar vikur í vetur, meðan starfsfólk skrifstofunnar er í mat.

Eins er Anna liðstjóri í umferðargæslu (e. Safety Patrol) á morgnana fyrir skóla næstum aðra hvora viku. Þannig er að fimmtubekkingar annast gangbrautarvörslu í upphafi og lok skóladags undir stjórn liðstjóra úr 6. bekk. Meðal verkefna liðstjórans er að halda fimmtubekkingunum við efnið, skrá niður bílnúmer og lit þeirra bifreiða sem fylgja ekki umferðarreglum (taka ólöglega beygjur, leggja við gulan kantstein eða of nálægt gatnamótum o.s.frv.) og koma listanum til umsjónarmanns gangbrautarvörslunnar. Anna sagði mér að fyrir nokkrum dögum hefði hún skráð niður þrjá bíla á einni vakt.