Flutningar

Það hefur ekki verið skrifað mikið hér á hrafnar.net í sumar, þó ýmislegt hafi gengið á. Ég og börnin vorum á Íslandi í allt sumar, þar sem ég vann í Vatnaskógi og börnin fóru víða og hittu marga ættingja. Á meðan lauk Jenný doktorsverkefninu sínu við The Ohio State University og er núna með réttu kölluð Dr. Jenný í öllum samræðum (eða alla vega sumum).

Jenný varði ritgerðina sína í lok júlí, var á ráðstefnu á Miami Beach um mánaðarmótin júlí/ágúst. Ég og börnin komum síðan til Ohio 8. ágúst en síðan þá hef ég og Jenný verið á fullu við að flytja fjölskylduna á milli fylkja, fyrst að pakka, síðan að setja í gám, þessu næst að keyra sjálf til Norður Karólínu og loks taka á móti gámnum og tæma hann inn í nýja íbúð. Þangað erum við komin núna, nettengingin orðin virk og eftir nokkrar mínútur munu síðan Binni afi og Anna amma koma í heimsókn og hjálpa okkur við að klára að gera allt tilbúið á nýjum stað. En þau verða með okkur í rúma viku.

Það er samt ekki allt orðið rólegt enn. Börnin byrja í skólanum í næstu viku. Við förum ásamt Önnu og Binna í útskriftina hjá Jennýju í Columbus, Ohio eftir 10 daga og síðan fer ég til Íslands upp úr miðjum september. Enn alla vega, helgin verður í rólegra lagi miðað við síðustu tvær vikur alla vega.

Annars vantar í færsluna að Anna og vinkonur hennar, Emma og Libby voru með leikjanámskeið fyrir börn í garðinum hjá Emmu, vikuna sem við komum aftur til Ohio. Anna missti því af mestu pökkuninni.