Flutningar og útskrift

Það hefur mikið gengið á síðustu daga. Anna amma og Binni afi komu í heimsókn og voru með okkur í viku hér á Kapelluhæð að taka úr kössum, skipta um þurrkaratengi, elda, hengja upp myndir og kaupa með okkur húsgögn og eldhústæki svo sitt hvað sé nefnt. Börnin eru bæði byrjuð í skóla, Anna Laufey í Phillips Middle School og Tómas í Raskhis Elementary School. Skólarnir eru báðir í nokkurri fjarlægð og er planið að börnin taki skólabíl á morgnanna, Tómas kl. 7:12 og Anna kl. 7:45. Í eftirmiðdaginn fer Tómas síðan í eftirskóladagskrá og er sóttur í skólann á milli kl. 16-18. Anna kemur hins vegar heim með skólabíl um kl. 15:45 fyrst í stað, en um miðjan september verður hún í eftirskóladagskrá sem felst aðallega í að fara á bókasafnið í skólanum og gera heimalærdóminn sinn. Þegar það hefst mun hún taka skólabíl sem kemur heim milli 17:00-17:30.

Tómas er reyndar ekki kominn í rútínu ennþá, við höfum keyrt hann í skólann og sótt hann strax eftir skóla, en það breytist á morgun þriðjudag. Annars hefur ekki verið mikil rútína hér á Kapelluhæð, við höfum verið að koma okkur fyrir og síðan héldum við ásamt Önnu ömmu og Binna afa til Columbus í Ohio á föstudaginn út af útskrift Jennýjar. Flugvallalokanir vegna fellibylsins Írenu settu reyndar strik í ferðaplönin. Við náðum samt að komast alla leið til Columbus frá Norður Karólínu, fyrst Jenný eldsnemma á föstudagsmorgni, en hún þurfti að funda í Columbus á föstudaginn og síðan við hin á föstudagskvöldi.

Þegar við lentum á föstudagskvöldinu voru skilaboð í talhólfinu mínu um að flugið til baka til Norður Karólínu hefði verið fellt niður, en ég hafði pantað flug í gegnum Fíladelfíu sem átti að lenda um kl. 21:00 hérna á flugvellinum okkar. Ég hafði samstundis samband við flugfélagið og þeim tókst að koma mér og börnunum í flug síðar um kvöldið í gegnum aðra borg. Ég og börnin komum heim rétt fyrir kl. 1:00 í nótt, en Tómas sofnaði í bílnum á leiðinni af flugvellinum rétt um kl. 12:30.

Jenný kvaddi okkur og foreldra sína á bílastæðinu við The Ohio State University á sunnudaginn og keyrði á undan okkur út á flugvöll en hún er að fara á ráðstefnu í Kaliforníu fram á miðvikudagskvöld. Binni og Anna kvöddu síðan mig og börnin á flugvellinum í Columbus, en þau eru í þessum skrifuðu orðum nýlent á nýopnuðum JFK flugvelli í NY, og halda þaðan til Íslands eftir 3-4 klst.

Það var mjög gaman að hafa tækifæri til að fara aftur til Columbus þrátt fyrir að það séu rétt um tvær vikur síðan við fluttum þaðan. Anna Laufey fékk tækifæri til að hitta Emmu vinkonu sína, Jenný og Anna amma fóru í búðir í Easton og ég, Binni og Tómas fórum niður í Bexley. Tómas hitti vini á Trinity Campusnum, meðan ég og Binni gengum niður Main Street og fórum á Starbucks. Á laugardagskvöldið fórum við svo út að borða með prófessornum hennar Jennýjar og konunni hans og stórglæsilegum veitingastað í miðborg Columbus, sem ber hið einfalda heiti M.

Á sunnudaginn var síðan útskriftin sjálf. 202 doktorar voru útskrifaðir frá skólanum á sunnudaginn, en heildarfjöldi útskriftarnema frá The Ohio State voru 1922 á þessu misseri. Athöfnin var glæsileg en löng og það verður að segja að Dr. Gee forseta skólans tókst ágætlega upp við að segja „Jenný Brynjarsdóttir“ þegar henni var afhent prófgráðan, en einungis doktorar eru lesnir upp.

Myndir frá athöfninni og deginum eru hugsanlega væntanlega síðar.