Vonda frænkan* gaf okkur áskrift af Mannlífi í jólagjöf. Skemmtileg gjöf enda gaman að fá reglulega lesefni á íslensku hingað til BNA. Hins vegar er einn galli á gjöfinni. Nú er komið fram í mars og ekkert blað hefur enn skilað sér. Ég hef tvívegis reynt að hafa samband við Mannlífsmenn með tölvupósti en ekki fengið nein viðbrögð. Því var það í gær að ég lét vondu frænkuna vita og hún gekk í málið. Hún hringdi síðan í mig í dag og sagði mér að Mannlífsfólkið hefði sagt sér að DHL hefði klúðrað öllum blöðum sem áttu að fara til áskrifenda í útlöndum frá áramótum. Þau vissu af þessu vandamáli, en hefðu ekkert gert í málinu. Því var lofað að senda okkur öll þrjú blöðin sem vantar með hraðpósti og framlengja áskriftina um 3 mánuði.
Spurningin mín er hins vegar er hvers vegna við vorum ekki látin vita að það væru vandamál, Economist sendi mér t.d. fyrirspurn þegar ég var búin að vera áskrifandi í mánuð og spurði hvort allt væri í lagi. Eins hlýt ég að spyrja hvers vegna ég fékk engin svör við fyrirspurnum mínum á netinu, fyrst svarið lá í augum uppi. Þjónusta er greinilega ekki sterka hlið þeirra sem ég hef samskipti við.
* Börnin okkar eru alin upp við það að á Íslandi, sé vond frænka sem hafi það takmark eitt að kenna þeim vonda siði. Dóttir mín rifjar t.d. reglulega upp að vonda frænkan hafi kennt henni að sparka í og slökkva á ljósastaurum.
Vonda frænkan varð vond í símann við dömuna hjá Fróða og nú á að vera pakki á leiðinni til ykkar með aukablöðum og slíku. Frænkan fékk meira að segja líka blaðapakka í skaðabætur og liggur nú í Gestgjafanum, Hús og Hýbýlum og Séð og heyrt.
Vonandi kemur ykkar sem allra allra fyrst
Besta trikkið er þó þegar vonda frænkan kenndi GTM yngri að halda um hálsinn á bangsanum og berja ítrekað í hausinn, sú kennslustund tókst sérlega vel enda státar vonda frænkan af tvöföldu kennaraprófi.
Blöðin komu 20. mars, málinu er því lokið.