Spring break – víhí!

1533

Já, við mæðgurnar höfum verið í vor-fríi undanfarna viku og það var kærkomið en alltof fljótt að líða. Við höfum að mestu tekið lífinu með ró, reynt að hvíla okkur eftir nokkuð strembna byrjun á Ameríkudvöl. Ég hef notið þess að vera með fjölskyldunni og ekkert hugsað um skólann. Elli notaði tækifærið og tók sér smá frí frá húsföðurhlutverkinu, fór m.a. í bíó og á bílasýningu (! ætli hann hafi þurft smá „macho“ mótvægi við hlutverkið sem hann gegnir þessa dagana?).

Við Anna Laufey áttum góðar stundir saman í Vina-gerðar-búðinni (Friends 2B made). Þar er hægt að velja dúkkur í tveimur stærðum en í ýmsum útgáfum og Anna Laufey valdi sér eina brúnhærða með brún augu (því að þá væri hún með augu eins og pabbi!). Við horfðum svo á þegar settur var svampur í dúkkubúkinn en áður var sett lítið hjarta í hana (sem Anna átti að kyssa í bak og fyrir) og strikamerki ef hún skyldi týnast. Anna Laufey valdi fínustu föt á dúkkuna og slaufur í hárið, úrvalið var mikið og endalaust til af fylgihlutum. Að lokum var prentað út fæðingarvottorð og dúkkan fékk nafnið Karen (eins og góð vinkona Önnu á Íslandi). Anna Laufey hefur varla skilið Karenu við sig og dúkkan verður t.d. að vera með bílbelti í bílnum.

Á mánudaginn fórum við í fyrsta ferðalagið okkar hér í Ameríku. Við skruppum dagsferð til Cincinnati sem er heldur stærri borg en Columbus og fórum í sædýrasafn. Það er reyndar í Newport sem er hinumegin við Ohio ánna og því í Kentucky fylki. Okkur þótti vel af sér vikið að komast í annað fylki þó ekki væri nema nokkur hundruð metra :-). Sædýrasafnið var fínt, flottastir voru hákarlarnir og mörgæsirnar. Safnið var staðsett í frekar daufri verslanamiðstöð en við fundum þó Starbucks kaffihús inní Barnes and Nobles bókabúð með frábæru útsýni yfir ánna og skýjakljúfana og tvo stóra íþróttaleikvanga í miðborg Cincinnati. Elli og Anna Laufey tóku nokkrar myndir. Veðrið hefði mátt vera betra en við sluppum þó við snjókomuna sem gekk yfir fylkið daginn eftir. Á bakaleiðinni stoppuðum við í smábænum Lebanon og borðuðum á elsta gistiheimili Ohio fylkis The Golden Lamb. Það var yndisleg upplifun, mjög amerískar innréttingar og veggfóður og vinalegar þjónustustúlkur. Maturinn var frábær, við fengum okkur þó ekki lamb heldur Kanadískan lax og smökkuðum í fyrsta sinn „eplasmjör“ sem kom skemmtilega á óvart.

Annars hef ég notað fríið til að versla föt á mig og Önnu Laufeyju, það er sannarlega ekki erfitt að finna búðir í þessari borg. Vandinn felst í að velja bara nokkrar svo verslunarferðir taki ekki marga daga og finna út hvar verðið er skaplegast. Ég var nokkuð dugleg, fór bara í tvö „moll“ og svo í Target og Old Navy.

One thought on “Spring break – víhí!”

Lokað er á athugasemdir.