Sumarið í sumar

Nú er dagskrá næsta sumars byrjuð að fá á sig mynd. Þetta verður líklega síðasta sumarið í nokkurn tíma sem við fjölskyldan fáum langt sumarfrí saman, áður en nám, prófatökur og verkefnavinna taka hér öll völd.
Við gerum ráð fyrir því að fara upp úr miðjum júní í tveggja vikna ferð um austurströnd BNA, hefja ferðina í „Upstate New York“ og fara þaðan m.a. til Boston og New York borgar, áður en við komum til Baltimore. Ég hef bent Jennýju á að ég vilji gjarnan koma við í bænum Lakewood í New Jersey á leið frá New York til Baltimore, en hún er ekki jafn spennt.
Frá Baltimore fljúgum við svo til Íslands og lendum í Keflavík að morgni 29. júní. Hvað við gerum á Íslandi er að einhverju leiti óráðið en þó verð ég forstöðumaður í 6. flokki í Vatnaskógi 11.-17. júlí og væntanlega verð ég starfsmaður í unglingaflokki í skóginum 25. júlí-2. ágúst. Við erum búin að panta innigistingu á Sæludögum 4.-7. ágúst og gerum síðan ráð fyrir að fljúga út aftur til BNA í vikunni eftir Verslunarmannahelgi. Eins fer Anna Laufey í 8. flokk í Ölveri 24.-28. júlí.