Vorið er komið í Ohio. Hitastigið hefur verið heldur hærra og raki kominn í loftið – og þar með „útlanda lyktin“. Við fengum reyndar smá vott af óveðrinu sem gekk yfir miðvesturríkin í gær, það var meira að segja hvirfilbylja-vakt (tornado watch) í sjónvarpinu.
Það er ótrúlegur munur á gróðri hér miðað við síðustu viku. Grasið er grænna og runnar og tré við það að laufgast. Skemmtilegast finnst mér að sjá blómin á trjánum. Hér í hverfinu eru nokkur tré með skærgulum blómum, alveg ekta páskalitur. Og á trénu fyrir utan gluggann á skrifstofunni minni eru að springa út hvít blóm. (nei, amma, ég veit ekki hvað neitt af þessu heitir, tré og blóm er nóg fyrir mig 😉 )
Þetta tré er líklega það notalegasta við skrifstofuna mína í skólanum. Um 30 nemendur deila stóru rými í kjallara í Brown Hall sem er ansi hrörleg bygging. Enginn vaskur er í nestisaðstöðunni, salernin eru varla boðleg og loftplöturnar eru allar í henglum. Önnur rými í kjallaranum virðast ekki vera í notkun. En þarna eru tölvur, borð og stólar sem nægir fyrir lærdóm milli fyrirlestra. Sagan segir að nokkrum heimilislausum einstaklingum hafi verið hent út til að rýma fyrir tölfræðinemunum nú í vetur. Ekki veit ég hvað hefur orðið um það ógæfufólk, ef satt er. En það er reyndar ljóst að tölfræðideildin er ekki hátt skrifuð í háskólasamfélaginu þegar kemur að húsnæðisveitingum. Aðalhúsnæði tölfræðideildarinnar Cockins Hall er líka frekar illa farin þó það sé skömminni skárra en Brown Hall.