Að gefa skilaboð

Tómas Ingi var ekki of ánægður með foreldra sína í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, þegar hann var settur í rúmið. Í mótmælaskini við þessa ákvörðun greip hann í rimlana á rúminu og stóð upp.
Eini vandinn við þessa mótmælastöðu var að þegar upp var komið vissi Tómas greyið ekki hvað skyldi gera næst. Hann stóð því um stund og studdi sig við rimlana, þar til foreldrarnir hjálpuðu honum að leggjast niður. Eftir þessa undarlegu reynslu sína, virðist Tómas Ingi hafa ákveðið að láta duga í bili að standa á hnjám þegar hann telur sig þurfa að mótmæla veru sinni í rúminu sínu.
Hins vegar má vera ljóst að nú styttist í að hækka þurfi hliðina á rimlarúminu þannig að Tómas Ingi fari ekki á flakk um íbúðina á nóttinni.