Var að fá smá áfall, það er meira en mánuður síðan ég tjáði mig síðast á þessari síðu. Sem betur fer á ég góðan mann sem sér um að flytja fréttir. Ég hef verið á kafi í skólanum, er í næstum helmingi fleiri einingum en á síðustu önn. Ég sá fram á að verða alltof lengi í þessu námi ef ég tæki bara 9 einingar á önn, sem er lágmarkskrafa fyrir TA, en í heild þarf ég að taka 80 einingar.
Ekki bætti út skák að í miðjum miðannarprófum fékk ég mjög slæmt kvef, með slími og hósta. Ég mátti ekkert vera að því að vera veik og hélt áfram að kenna og vinna eins og venjulega. Viku seinna endaði þetta hinsvegar með því að ég fékk sýkingu í eyrun. Vaknaði einn morguninn með hræðilega sáran verk og pantaði auðvitað strax tíma hjá heimilislækninum okkar, Dr. Vernon. Ég fékk tíma um hádegið svo ég tók nokkrar verkjatöflur og reyndi að leggja mig. Þegar ég hitti lækninn fann ég ekki lengur til en var með þykkar hellur fyrir eyrunum. Dr. Vernon sagði bara „Yeah, this ear is infected. This must have hurt!“ (Jaá, þetta eyra er sýkt. Þetta hlýtur að hafa verið sárt!) Ég fékk sýklalyf, eyrnadropa, nefúða og íbúprófen – ekkert sparað! Ég var auðvitað mjög slöpp og missti fjóra daga úr skólanum. Ég var enn með hellur fyrir eyrunum þegar ég mætti í skólann á mánudaginn, sem var frekar óþægilegt þegar ég var að kenna – ég heyrði varla í nemendunum. Þeim fannst það kannski bara betra :-). Það er gott að vera orðin frísk aftur og hellurnar eru (næstum) horfnar. Ég þarf líka að vera hraust fyrir síðustu lotuna í skólanum, nú eru bara 3 vikur eftir.
Annars komst ég að því að hvorki nemendur mínir né samnemendur þekktu enskt orð eða hugtak fyrir „hellur fyrir eyrum“. Einn lagði til að kalla það „ears need to pop“. Veit einhver hvernig hægt er að segjast vera með hellur fyrir eyrum án þess að fara í langar útskýringar?
Það er gott að „heyra“ að þú sér að ná heyrn og heilsu aftur. Við sendum hlýja strauma til þín þó að á Íslandi „í dag“ sé kaldasti 23 maí dagur frá því um 1800. Svo teljum við niður dagana þar til þið komið, þó verður örugglega sumar og sól.