Fjölskyldan fór af stað í dag til að kaupa árskort í SixFlags skemmtigarðana, en við gerum ráð fyrir að heimsækja nokkra slíka á ferðalaginu um norð-austurhluta BNA. Við keyptum miðana með nokkrum afslætti í Kroger og þurftum svo að fara í Wyandot Lake skemmtigarðinn til að sækja varanlegt aðgöngukort með mynd. Við nýttum að sjálfsögðu tækifærið og skelltum okkur í garðinn.
Ég hafði ekki áttað mig á því að vatn í svona skemmtigörðum er ekki hitað, alla vega ekki í Wyandot. Þegar það bættist við að fremur skýjað var í dag og aðeins rétt ríflega 23 gráður, þá verður að segjast að vatnið var KALT!!!
Tómas Ingi var settur í barnavaðlaug í c.a. 30 sekúndur og þannig lauk hans vatnaskemmtun. Reyndar fannst honum gaman að skríða um sólbekkina og skoða sig um, en vatnið var ekki vinsælt. Það sama átti reyndar við um mig, enda minnti hitinn á vatninu helst á Eyrarvatn.
Anna og Jenný fóru hins vegar í öldulaugina, þrjár risarennibrautir og skemmtu sér hið besta. Nú eru þær mæðgur á Disney Pixlar Movie The Cars og eru ekki væntanlegar heim fyrr en upp úr 22 í kvöld.