Ferðadagbók – Fyrsti dagur (15. júní)

2003

Bexley, Ohio, USA – Niagara Falls, Ontario, Canada

Já þá er ferðalagið mikla hafið. Við lögðum af stað frá Bexley kl 10:30 í morgun. Fyrir lá að keyra um 370 mílur (um 590 km) til Niagara Falls. Fyrsta stop var í Mansfield Ohio. Anna Laufey valdi veitingastaðinn: Burger King. Við ákváðum að sneiða framhjá Cleveland í þetta sinn en fannst þó nauðsynlegt að kíkja aðeins á Lake Erie enda þá kominn tími til að rétta úr sér. Eftir snilldar leiðsögn Ella keyrðum við í gegnum bæinn Geneva og inn í Geneva State Park og fundum litla sæta strönd.
Við tókum fram stóra Bangsimon handkæðið og hvíldum okkur. Tómas Ingi og Anna Laufey léku sér í sandinum. Við mæðgur stungum tánum í Lake Erie, vatnið var nú heldur kalt. Eini gallinn voru flugurnar sem voru heldur aðgagnsharðar og stórar, en við virðumst þó hafa sloppið við bit.

Við ákváðum að hvíla okkur aðeins á hraðbrautinni og keyra aðeins meðfram vatninu. Í smábænum Geneva-on-the-lake fengum við okkur ís. Við keyrðum svo í gegnum mikið sumarhúsasvæði og bæinn Ashtabula áður en við beygðum aftur uppá hraðbraut nr. 90. Hraðbrautina fórum við í gegnum Pensylvania fylki, stoppuðum bara einu sinni til að kaupa gos og nammi. Við stoppuðum hinsvegar ekkert í New York fylki, keyrðum bara hraðbraut 90, sem reyndar varð að tollvegi, alla leið að og í gegnum borgina Buffalo og yfir til bæjarins Niagara Falls í Canada. Við þurftum reyndar að sýna alla pappíra á landamærastöðinni en lentum ekki í neinum vandræðum með það. Það reyndist þó svolítið flókið að rata að hótelinu, vantaði imbaheldu bandarísku vegamerkingarnar.

Þegar við komum inná hótelið spurði Anna Laufey: “Af hverju erum við á svona fínu hóteli?”. Henni fannst húsið vera heill kastali, stórir stigar í boga, risa ljósakrónur, sundlaug á 3. hæð og heill vatnagarður á efstu hæðinni. Við borðuðum á Planet Hollywood sem var jafn lítið spennandi og gamla Planet Hollywood skytran hans Ella var ljót. Þjónustan var léleg (við kannski orðin of miklir Ameríkanar?) og maturinn miðlungs en verðið hátt.

Ef smellt er á myndina hér að ofan fást fleiri myndir frá þessum degi ferðarinnar.

One thought on “Ferðadagbók – Fyrsti dagur (15. júní)”

  1. Flottur kjóll sem Anna Laufey er í, ekki viss um að hún geti þó notað hann mikið í rigningunni og kuldanum hér heima.

Lokað er á athugasemdir.