Annar dagur (16. júní)

2026

Niagara Falls, Ontario, Canada – Seneca Falls, New York, USA

Niagara Falls er mikill túrista staður. Hótel á hótel ofan, veitingastaðir, búðir, skemmtigarðar, draugahús o.s.frv. Hér er hægt að finna sér eitthvað dundurs í langan tíma, en einn dagur nægir þó til að skoða fossana. Við byrjuðum daginn á fínum morgunverði hjá Tim Hortons. Anna Laufey og Elli skelltu sér síðan í sundlaugina á hótelinu en við Tómas Ingi settumst inn á Starbucks. Því næst fórum í siglinu upp að fossunum með Maid of the Myst.
Ég ákvað að prófa nýja barna-bakpokann okkar og hann reyndist mjög vel. Tómasi Inga fannst mjög gaman að vera í bakpokanum og hann reyndi ekki mikið á bakið á mér. Siglingin var mögnuð og frekar blaut upplifun, veðrið var yndislegt og fossarnir flottir. Tómas Ingi var nú ekki eins uppviðraður af þessum fossum og foreldrarnir og sofnaði í miðri bátsferðinni. Ég var auðvitað voða ánægð með að hann gat sofið í nýja fína bakpokanum. Eftir bátsferðina löbbuðum við aðeins eftir árbakkanum og nutum útsýnisins. Við fengum okkur hádegismat á ágætum veitingastað með útsýni yfir fossana. Við sátum úti og það var svolítil gjóla sem þýddi að af og til kom smávegis úði af fossunum yfir okkur.

Eftir matinn keyrðun við aðeins eftir ánni Canada megin og fórum yfir til Buffalo USA á friðarbrúnni. Við tók keyrsla eftir hraðbraut 90 í austur átt, gegnum sveitir New York fylkis. Við ákváðum að gista eina nótt á Holiday Inn hóteli í smábænum Seneca Falls við eitt af fingur vötnunum. Ekki veit ég hvort hér nálægt er raunverulegur foss en hér er vagga kvenfrelsishreyfingarinnar í Bandaríkjunum. Héðan eru tvær af merkustu baráttukonum BNA og hér er safn um kvenfrelsisbaráttuna og minningargarður. Ætlunin er að skoða þetta á morgun. En við eyddum kvöldinu í stóru Outlet-molli hér nálægt og keyptum sandala og strigaskó á okkur mæðgur.

Nú sitjum við hjónin í rólegheitum á hótel herberginu okkar, börnin loksins sofnuð. Þar sem hér fylgir nettenging þá skellti ég inn það sem komið er af ferðasögunni. Hún verður svo uppfærð þegar tækifæri gefst til. Við verðum í Boston aðfararnótt mánudags en vitum ekki enn hvar við verðum næstu nótt.