Það var lítið um hátíðarhöld hér í BNA í tilefni 195 afmælisdags Jóns Sigurðssonar. Við fjölskyldan héldum áfram ferðalagi okkar um norðausturhluta landsins. Við vöknuðum fremur seint í morgun á Holiday Inn í Seneca Falls, við náðum þó í ágætan morgunverð og komumst af hótelinu rétt um kl. 11:15. Fyrsta stopp Kvenréttindasafnið í Seneca Falls, en þar er vagga kvenréttinda í þessu landi. Við fórum sem leið lá niður eftir aðalgötu bæjarins og fylgdum þar leiðbeiningum hótelstarfsmanns. Þrátt fyrir góðan vilja og glögg augu, tókst okkur ekki að sjá safnið, eða réttara sagt söfnin (Women’s Hall of Fame annars vegar og Women’s Rights National Historical Park hins vegar). Við keyrðum því nokkra stund um bæinn og enduðum með að leggja bílnum við Seneca Community Center og leita upplýsinga.
Eitthvað voru þær óljósar en eftir nokkra göngu um bæinn, tókst okkur með aðstoð Önnu Laufeyjar að hafa upp á Women’s Hall of Fame sem reyndist fremur hóflega staðsett og ekki mjög áberandi í götumynd þessa annars litla þorps. Það verður að segjast að það var áhugavert að sjá upplýsingar og myndir af bandarískum konum sem teljast hafa lagt sitt í lóðarskálarnar til betri heims.
Á safninu fengum við upplýsingar um hvernig við gætum fundið fundarstað og minningargarð um fyrstu ráðstefnuna sem haldin var um kvenfrelsi í BNA 1848. Þangað fórum við og sáum yfirlýsingu fundarins á vegglistaverki. Það má velta fyrir sér hvort erfiðleikarnir við að finna safnið og garðinn séu ekki táknrænir fyrir stöðu kvenna í þessu landi, en kvenréttindin sem konurnar börðust fyrir eru enn ekki alltaf talin sjálfsögð hér í BNA.
Eftir þessa heimsókn héldum við suður eftir Cayuga Lake í átt til bæjarins Ithaca, en bærinn er þekktastur fyrir Cornell University, en meðal góðra nema þar var sr. Halldór Gröndal sem lengi var prestur í Grensáskirkju. Á leiðinni suður eftir vatninu ókum við framhjá fjölmörgum vínekrum sem buðu upp á vínkynningar. Við ákváðum að stöðva á einni ekrunni sem hafði veitingastað á sínum snærum, Bistró Thirsty Owl og fengum okkur þar ljúffengan hádegisverð á svölunum þeirra með útsýni yfir vatnið fyrrnefnda. Jenný notaði tækifærið og fékk eitt glas af framleiðslunni þeirra og smakkaðist vel.
Við héldum frá Þyrstu uglunni um kl. 15:00, sem heitir víst 3pm í þessu landi, ókum í gegn um Ithaca, misstum af beygjunni upp að Cornell en héldum þess í stað í ferð um sveitir New York fylkis.
Það var hátt í tveggja tíma akstur um smábæi eins og Caroline, Lisle, Greene og Coventry sem beið okkar, bíllinn réð reyndar ekki of vel við sumar brekkurnar, en við komumst loks á hraðbrautina I88 sem liggur frá bænum Binghamton og alla leið til höfuðborgar New York fylkis, Albany (sem af sumum er víst kölluð Smallbany). Í framhjáhlaupi má reyndar geta þess að við stoppuðum stutt og fengum vistir og bensín í bænum Whitney Point. Á bensínstöðinni á næstu dælu sáttu þrír félagar saman í ryðguðum þreyttum pallbíl, með hermannahúfur og suðurríkjafánann í glugganum, meðan Anna og Jenný keyptu vistir mátti sjá dráttarbílinn úr Disney Pixlar myndinni The Cars, keyra framhjá og loks þegar ég náði í vistir fyrir mig í bensínstöðina, var þar vegalögga sem ég er viss um að var líka í Fargo. En þetta var útúrdúr.
Við keyrðum í 1 1/2 klst eftir I88 á leið okkar til Albany og á leiðinni brast Anna Laufey í söng nokkrum sinnum. Einn söngurinn var eitthvað á þessa leið:
Jenný er rugluð,
Elli er ruglaður.
Þau ætla að keyra
alla leið til Íslands.
Enn ótrúlegt nokk, eftir rétt um 790 mílur finnst Önnu Laufeyju ekkert rosalega skemmtilegt í bíl. Tómas hins vegar skemmtir sér oftast nær hið besta. Meðan ég man, þegar Jenný var að skipta á honum á hvíldarstæði við I88, rak hún augun í fyrstu tönnina hans Tómasar í neðri góm.
En áfram með ferðasöguna. Við semsé komum að Albany og hugðumst e.t.v. gista þar í nágrenninu. Okkur tókst hins vegar að sveigja framhjá bænum og afkeyrslunni á hraðbrautinni þar sem meint hótel stendur. Við héldum því leið okkar áfram inn í Massachussets og erum nú stödd á Super 8 móteli í smábænum Lee í westast í fylkinu.
Við hyggjumst halda héðan snemma í fyrramálið :-), koma við í Springfield, kíkja á Dr. Seuss og halda síðan til Boston þar sem bíður okkar huggulegt (vonandi) herbergi á Radisson Hotel Boston í tvær nætur.
Takk fyrir ferðasöguna, mjög gaman að lesa þetta. Góða skemmtun á Dr. Seuss safninu. Hlakka til að sjá ykkur á klakanum.