Krakkasafnið (dagur fimm)

2159

Boston, Ma

Í dag var farið í skoðunarferð um Boston með Old Town Trolley. Við hófum ferðina framan við hótelið eftir að hafa fengið frábæran morgunverð hér á Radisson. Fyrsta stopp reyndist vera Krakkasafnið við Tehöfnina og við hoppuðum af. Þar sáum við leiksýningu um Arthur sem hugðist byggja sér trjákofa og skoðuðum c.a. einn þriðja eða jafnvel bara einn fjórða af safninu á þeim tveimur klukkustundum sem við vorum þar inni. Það skrifast á mig að hafa verið orðinn svangur og þreyttur og viljað fara. Annars má reikna með að þær mæðgur hefðu verið þarna mjög mörgum klukkustundum lengur.
Við gengum síðan eftir hafnarsvæði um stund, stöldruðum við og fengum okkur að borða áður en við héldum á ný af stað í skoðunarferðina hjá Old Town Trolley. Næsti leggur var með Peppermint Patty sem sagði okkur nokkrum sinnum að þetta væri hennar fyrsta vika í starfi sem akandi leiðsögumaður. VIð hoppuðum af vagninum hennar við Boston Common og fórum með starfsmanni Old Town í gönguferð um Beacon Hill, sem er ríkramannahverfið hér í Boston. Þar var okkur bent á einbýlishús sem metið er á $15.000.000 og raðhús sem hægt er að fá á $5.000.000. Okkur var einnig sagt nokkrum sinnum að John Kerry forsetaframbjóðandi ætti heima þarna í hverfinu.

Við fórum síðan á ný í vagninn eftir stutt stopp í Boston Common og lukum hringferðinni við hótelið, rétt um 7 klst eftir að við lögðum af stað.

Við vorum rétt í þessu að koma af California Pizza Chicken, Tómas er sofandi í kerrunni sinni, Anna er að reikna í stærðfræðibókinni sinni úr Casshingham og Jenný skrapp út í CVS, til að kaupa sólaráburð og smábarnanaglaskæri.