Í morgun yfirgáfum við hótelið okkar um kl. 11:30am og héldum áleiðis til Six flags skemmtigarðanna í Lakewood, New Jersey. Þetta var sjötta hótelið á ferðinni og komin nokkur þreyta í hópinn, enda mikil athöfn að ganga frá ferðarúmi, pakka í bílinn, blanda í pela og önnur verkefni sem fylgja morgnum á svona „road-trip“. En nú eru einungis tvö hótel eftir, það sem við erum á núna í Vatnaskógi og síðan flughótel í Baltimore.
Það verður annars að segjast að morgunmaturinn var stórglæsilegur í morgun, kokkur annaðist gerð sérhannaðra eggjakakna og hægt var að fá heitar vöfflur með sultu og rjóma.
Þegar við vorum búin að borða og koma okkur í bílinn var sem sé lagt af stað á skemmtigarðasvæðið. Við komum þangað um hádegið og keyrðum beint inn í Six Flags Wild Safari og hittum þar hin fjölbreyttustu dýr. Það kom okkur reyndar á óvart að ljónin, aparnir, fílarnirog nokkur önnur dýr voru inn í girðingum, en önnur gengu um á malbikinu í mestu makindum. Jenný sá að mestu um myndavélina og má sjá afrakstur þess hér á vefnum.
Þegar við komum úr Safari-garðinum, enduðum við á bílastæðunum við Great Adventure-garðinn og ákváðum því að kíkja inn í smástund en skoða hann betur á morgun eða þriðjudaginn. Þessi smáheimsókn varð þó rétt tæpir 4 klst og ég og Anna enduðum hundblaut frá toppi til táar eftir að hafa farið í vatnstengd ævintýratæki.
Við keyrðum síðan frá garðinum rétt fyrir 5pm og á Best Western hótelið hér í Vatnaskógi. Við skruppum á TGI Friday’s eftir að hafa skipt um föt, þ.e. ég og Anna og nú sitjum við þreytt og södd eftir mikinn dag.
Þess má geta að í dag sýndi ferðamælirinn í bílnum að við hefðum lagt að baki 1.600 mílur (2.575 km) frá því að við keyrðum af bílastæðinu við OSU 15. júní. Enn eru eftir rétt ríflega 250 mílur (400 km) eftir af ferðinni þar til bílnum verður lagt við flugvöllinn í Baltimorebæ á miðvikudaginn.
Heimleiðin frá Baltimore til Columbus í ágúst er síðan um 500 mílur (800 km). Með öðrum orðum þegar ferðalaginu líkur aðra/þriðju helgina í ágúst munum við hafa lagt að baki um 2.350 mílur eða 3780 km á vegum hér í BNA.
Enginn smá kraftur í fólkinu, stóru sem smáu. Hlakka mikið til að hitta ykkur á miðvikudaginn.
Kveðja
Verður þú í Baltimore? Við lendum ekki fyrr en á fimmtudagsmorgni á Íslandi 🙂