Þrettándi í ferðalagi

Í dag var komið að næst síðasta degi ferðalagsins. Við reyndar vöknuðum óvenjusnemma eða kl. 6:30, þökk sé vondu frænkunni. Þannig var að frænkan sagði pabba mínum að það væri von á okkur á miðvikudagsmorgun til Íslands og pabbi hringi í tengdapabba og spurði hvort hann myndi sækja okkur út á völl. Tengdapabbi brást auðvitað við með undrun og hringdi samstundis í Jennýju til að staðfesta að við kæmum í raun á fimmtudagsmorgun. Eini vandinn var 4 klst tímamunur svo síminn hringdi á hótelherberginu okkar kl. 6:30 og við á fætur. Þannig að þessi vitleysa í Guðrúnu Laufeyju varð til þess að við erum búin að vera eins og draugar í dag. En nóg um það.

Við fórum snemma í morgunmatinn á hótelinu, reyndar í sitt hvoru lagi meðan börnin sváfu, en Anna taldi óþarft að vakna fyrir vondar beyglur vildi sofa. Við pökkuðum af kappi, ný föt og ný ferðataska kominn til sögunnar og nú var það þrautinni þyngra að koma öllu fyrir í bílnum, en það tókst. Við fórum af hótelinu um kl. 9:54 og eftir að hafa fundið morgunmat fyrir Önnu keyrðum við að ströndum New Jersey og fórum á ströndina. Fyrir aðgang að ströndinni vorum við rukkuð um $17 og auk þess $1.25 fyrir bílastæði. Strandferðin varði í um klukkustund og óðum við Anna í Atlantshafinu af miklu kappi. Öldurnar voru svo stórar að Önnu fannst að þeir væru að taka hana í sjóinn og hélt því í pabba sinn.

Því næst ókum við sem leið lá út úr New Jersey í suður, skárum nyrsta hluta Delaware og keyrðum síðan inn í hellidembu hér í Maryland-ríki. Við greiddum milli $15-$20 í vegatolla á þessari 200 mílna leið. Þess má geta að við höfum á þessari ferð okkar komið við í 9 ríkjum Bandaríkjanna auk Kanada.

Við komum á Best Western – BWI um kl. 16:15, náðum síðustu 20 mínútunum af leik Frakka og Spánverja og höfum verið að pakka fyrir Íslandsferð meira og minna síðan.

Það var reyndar nokkuð áfall að uppgötva að bílastæðið sem við erum búin að panta fyrir bílinn á meðan við verðum á Íslandi, er ekki á sérstöku lokuðu og vöktuðu bílastæðasvæði. Heldur er um að ræða heimild til að geyma bílinn upp við hótelið. Ég veit ekki hvort það er jákvætt eða neikvætt. Það er auðvitað stöðug vakt á hótelinu og bílastæðið er undir vegg, en þetta er ekki alveg það sem við héldum okkur vera að kaupa. Við munum hins vegar gera okkur þetta að góðu, enda vissulega hagræði af því að hafa bílinn við hótelvegginn þegar við komum aftur.

En nú eru börnin að komast í ró, morgunmatur fyrir kl. 9 í fyrramálið og rétt að halda áfram að pakka. Á morgun liggur fyrir að bóka okkur af hótelinu, kaupa nýjan bílstól fyrir Tómas, leggja bílnum við hótelið á ný, taka hótelskutluna út á flugvöll milli kl. 17 og 18 og fara í flug kl. 20:45. (Lending í Keflavík er áætluð 6:25 á fimmtudagsmorgni.)

Dagurinn í dag er annar myndalausi dagurinn í ferðinni. Útsýnið af NJ-turnpike var enda ekkert spes.

One thought on “Þrettándi í ferðalagi”

  1. Smá miskilningur þessi dagsetning kom ekkert frá mér neitt, heldur mömmu. Góða ferð heim, þið eruð síðan velkomin í fisk og kartöflur á Haðarstíginn hvenær sem er, matur er klukkan sex.

Lokað er á athugasemdir.