Við vöknuðum á miðvikudagsmorgun um kl. 8:00 og héldum áfram þar sem fra var horfið i pökkun. Við settum svo töskurnar í geymslu, pöntuðum skutlu af hótelinu kl. 17:30 og bókuðum okkur út rétt upp úr kl. 11:00.
Við héldum því næst í Toys’r’us og keyptum þar nýjan barnabílstól fyrir Tómas Inga og settum í bílinn. Þaðan fórum við í Mall in Columbia og ákváðum að dvelja þar fram eftir degi. Anna og Jenný fóru í bíó meðan ég og Tómas fórum og keyptum nokkra stuttermaboli. Eftir að hafa dvalið á svæðinu um fjórar klukkustundir fórum við síðan áleiðis aftur út á hótel.
Við sóttum töskurnar pökkuðum því sem hafði verið keypt og vorum tilbúin í skutluna rétt um 17:25, en skuttlan kom ekki eins og um var samið. Við biðum, gerðum athugasemd og síðan aftur og loksins kom bíllinn kl. 17:55. Bílstjórinn kenndi öllum öðrum um nema sér, en var síðan fremur fljótur á völlinn. Þar nutum við þess að bíða eftir fluginu og fórum loks í loftið rétt um kl. 21.
Tómas sofnaði strax og við fórum í loftið, svaf í 2-2 1/2 klst og vakti síðan allt þar til í bílnum hjá Binna afa á leiðinni inn í Eyktarhæð. Anna sofnaði ekkert og náði ekki að festa svefn fyrr en rétt um kl. 8:30 í morgun að íslenskum tíma, eftir að hafa vakað samfleytt í rúmlega 20 klst. Ég svaf í 20 mínútur í flugvélinni en Jenný ekkert.
Á leiðinni í gegnum Leifsstöð hittum við Sigrúnu frænku, Óðinn, Nínu, Sæla, Sigríði Sól og Karenu Sif.
Ferðalaginu um Bandaríkin er því formlega komið á pásu og sérstökum ferðalagafærslum því lokið í bili.
Já við erum ósköp fegin að vera komin heim, búin að leggja okkur aðeins og ætlum að taka því rólega næstu daga.
Þess má líka geta að mílumælir bílsins sýndi 1930,3 (rúmlega 3100 km) mílur þegar við lögðum honum við hótelið.