Styttist í brottför

Nú höfum við dvalið á Íslandi í tæpan mánuð og nú styttist í annan enda dvalarinnar. Við höfum hitt marga á þessum tíma og ekkert nema gott um það að segja. Einnig gaf ég mér tíma til að vinna í Vatnaskógi (sjá myndir) og fer aftur í Lindarrjóður á morgun í tæpan hálfan mánuð með stuttu hléi.
Annars var gengið frá opinberu meginverkefni þessarar fjórtíuogfimm daga ferðar, stúdentavegabréfsáritun minni í vikunni og tók verkefnið tæpar fjórar klukkustundir. Ég átti viðtal í sendiráðinu kl. 11:10 að morgni og fékk hringingu um kl. 14:45 þar sem mér var sagt að koma sem fyrst og sækja áritunina.
Annars er frá því að segja að Anna, Jenný og Tómas hafa náð að skjótast til Akureyrar, Anna er í þessum orðum skrifuðum í Ölveri og okkur hefur tekist að fara öll saman í sumarbústað með saumó hennar Jennýjar. Ekki má gleyma að Jenný og krakkarnir fóru í Hekluferð, þar sem var ekki gengið á Heklu.