Það er nú ljóst að skólastarf víðast hvar í mið-Ohio fellur niður hjá grunnskólabörnum á morgun. Það er enda spáð -11 stiga frosti á celsíus á morgun og einhverri vindkælingu. Í spákortunum er hins vegar heiðskírt fram á fimmtudag, en þá taka við smáél. Þetta þýðir með öðrum orðum að hér er fyrirtaksgluggaveður og vart snjó að sjá. Þurrkurinn er hins vegar gífurlegur og það sést vel á kinnunum á Tómasi sem sefur nú með rakatæki við rúmið sitt, og er allur útklíndur með rakakremi til að húðin springi ekki alvarlega. Enda nóg að glíma við kvefpestina. Julie, nágranni okkar frá Alaska var að velta fyrir sér áðan hvort að skólum yrði einfaldlega lokað fram á vor. Það var augljóst að henni þótti ekki ástæða til að loka öllu vegna kulda, þetta væri einfaldlega spurning um að klæða sig rétt. Líklega ræður þó einhverju í því sambandi hin sígilda spurning hér í BNA um „liability issue“, þ.e. ef barn fær frostbit, meðan það bíður eftir skólabílnum þá er líklega hægt að lögsækja skólayfirvöld og því betra að loka einfaldlega skólum ef frostið er mikið.
En þetta þýðir að ég, Tómas og Anna verðum heima á morgun og skemmtum okkur saman, líkt og í dag. Það er vonandi að frostið minnki þegar líður á vikuna, en skv. vikuspánni lækkar hæsti hitinn yfir daginn eitthvað þegar líður á vikuna, en þegar kaldast er, er ennþá spáð tveggja stafa mínustölum á celsíus fram yfir helgi.