Aftur í gang

Nú er lífið komið í samt lag hér í Bexleybæ. Næsta vika er síðasta vikan mín í skólanum á vetrarmisseri, ég er að taka lokapróf í Ministry of Worship sem ég þarf að skila á miðvikudaginn, búið er að dreifa lokaverkefninu í Systematic Theology I og loks er ég byrjaður á lokaverkefninu í Ministry of Educating. Þannig að vonandi verður rólegra hjá mér í lok næstu viku.
Tómas mætti aftur í leikskólann í dag, þar sem hann uppgötvaði að hann er orðinn elsta barnið á deildinni sinni, en Jack og Sarah, eru að flytja á næstu deild fyrir ofan. Tómas þarf því að læra snarlega að drekka úr glasi án stúts og sofa í venjulegu rúmi (ekki rimlarúmi), ef hann á ekki að dragast aftur úr í hörðum heimi menntakerfisins hér í BNA.
Annars voru Tómas og Anna í pössun í kvöld, en samnemandi minn, Jennifer Frantz, passaði meðan ég fór í tíma og Jenný fór yfir próf í skólanum sínum. Jennifer, sem er kölluð Jenny, sagði að börnin hefðu hagað sér með miklum sóma og hún hefði lítið þurft að hafa fyrir þeim.
En nú er líklega komið að því að fara að sofa. Á morgun liggur fyrir að hafa kynningu á guðfræðingnum Hans Küng í Systematic Theology I og ljúka við prófið í Ministry of Worship.