Anna Laufey gekk í skólann í dag með Ramonu, mömmu Brice, og hinum krökkunum héðan úr Trinity Apartments. En vegna kvefs og hausverks ákvað ég að liggja heima og rembast við að klára lokaverkefni í Systematic Theology. Á leiðinni voru Ramona og Anna að ræða um hvort væri betra að labba eða keyra í skólann. Anna sagði að það væri betra að keyra, en samt væri stundum gaman að labba. Til dæmis fannst henni gaman að labba með pabba sínum síðasta þriðjudag, enda hefði hann veikst í kuldanum. Það fannst Önnu víst svolítið fyndið. En ekki mér.
Annars hefst Spring Break hjá mér formlega núna, þar sem ég treysti mér ekki í Systematic Theology, enda lítið gagn að því að sitja í umræðutíma með hausverk og snýtuklút, og enga tilfinningu í litla putta á hægri hendi. Ég á annars eftir að ganga frá einum litlum pappír í Ministry of Worship – Tákn og líkingar í lestrum Hvítasunnudags og gera rannsóknaráætlun fyrir rannsókn á félagslegri vídd Islam í Evrópu með hliðsjón af hugmyndum múslima um dar al-Islam. Eftir tíma í Pontificium Josephinum á mánudagskvöld, verð ég síðan í langþráðu frí í rétt tæpa viku eða fram á næsta mánudagskvöld.
Anna flutti stutta kynningu í gær á Pocahontas fyrir bekkjarfélaganna, en hún er búin að vera að kynna sér sögu hennar í bókum og á netinu í að verða tvær vikur. Ég skrölti upp í skóla til að hlusta á hana, en kynningin var mjög vel flutt og skýr. Lokavikan hennar Jennýjar er að hefjast en hún byrjar í Spring Break eftir slétta viku, en þá kemur jafnframt Binni í heimsókn og verður með okkur í fríinu.
En ég sníkti mér víst ekki frí í Systematic til að skrifa fréttir, heldur til að sofa úr mér hausverkin og kvefið, þannig að ég læt þessu lokið.