Síðustu tveir dagar hafa verið miklir verslunardagar hjá fjölskyldunni. Eftir að „sumarið“ kom er mikil þörf á hjóli fyrir mig, þannig að öll fjölskyldan geti farið saman að hjóla. Eins tapaði Jenný gemsanum sínum síðustu helgi og því þurfti að festa kaup á nýjum síma og fá nýtt SIM-kort með símanúmerinu hennar. Þá höfum við síðustu vikur rætt nokkuð um nauðsyn þess að hafa heimasíma, hugsanlega segja upp kapaláskriftinni á sjónvarpinu og internetinu og fá í staðinn ADSL með símanum.
Allt hefur þetta verið á spjallstiginu. Þegar við svo fórum í gær til að kaupa nýjan síma og fá SIMkort fyrir Jennýju, kom í ljós að það myndi kosta okkur nálægt $60. Okkur bauðst hins vegar að færa gemsana okkar, með sömu númerum úr Frelsisáskrift í mánaðaráskrift, fá tvo nýja, Samsung Sync, 3G-fjórbandssíma, með videoplayer, mp3-spilara og 2M-pixla myndavél, svo fátt eitt sé nefnt, og að auki $200 inneign á Visakortum, fyrir aðeins $150 gegn því að vera áskrifendur í tvo ár. Eins var okkur boðið að fá heimasíma og 3MB ADSL á c.a. $40 á mánuði eftir OSU afslátt og ef reikningurinn væri sameiginlegur með gemsareikningnum. Þá myndum við fá ADSL módemið endurgreitt ef við værum áskrifendur að tengingu í 3 mánuði. Við slógum til, það tók rúmlega 1 klst að afgreiða pöntunina og við greiddum $213 fyrir pakkann og eigum von á $200 inneign á VISA-kortum eftir nokkrar vikur. Og síðan eftir nokkra mánuði $50 vegna ADSL-módemsins. Við hins vegar skuldbindum okkur til að greiða $120 á mánuði fyrir þjónustuna.
Á móti kemur að við höfum ákveðið að segja upp Kapalsjónvarpinu og internetinu þar sem er samtals $100 á mánuði, kostnaðurinn við frelsissímana okkar hefur verið um $30 á mánuði fyrir hvorn síma, og við fáum $50 endurgreiðslu í stað þess að þurfa að borga $60 fyrir nýtt SIMkort og síma, þannig að nokkur sparnaður hlýst af þessu öllu.
Ertu ennþá að lesa þessa færslu? Ef svo er, þá er gaman að segja frá því að í dag fórum við á útsölu í TREK-hjólabúðinni í New Albany og keyptum nýtt TREK 820 hjól fyrir mig. En í dag hófst útsala í búðinni. Hjólið hennar Jennýjar er líka TREK 820, en hjólið hefur tekið nokkrum breytingum á 10 árum. Nýja hjólið hefur t.d. dempara á framdekkinu. Með hjólinu keyptum við afturbretti, vatnsbrúsahaldara, ljós að framan og aftan, hjálm, standara og lás. Heildarverð fyrir allan pakkann á útsölunni var $311 með sköttum. Þar sem við eigum ekki hjólagrind (sjá neðar) þurfti ég að hjóla á nýja hjólinu heim frá New Albany, um 10 mílur, á stuttermabol, í rigningu og myrkri og tók það um 1 klst.
En á eftir að ráðast í nokkrar fjárfestingar á næstunni. Hér er stefnt að kaupum á MacBook tölvu þegar Leopard stýrikerfið kemur út, eins er ætlunin að kaupa hjólagrind á bílinn sem tekur þrjú hjól, þannig að við getum farið lengra til í hjólatúra og loks skilst mér á Jennýju að það sé þörf á fatakaupaleiðangri fyrr en síðar.
En svona er þetta hér í Ameríku, lífið er VISAkort og hér er lifað af miklum krafti.