Fyrir þremur tímum sendi ég tölvupóst til kennarans míns í námskeiði um Trúarbrögð hjá Theological Consortium of Greater Columbus en námskeiðið er kennt í Guðfræðiskóla katólsku kirkjunnar hér í Mið-Ohio. Verkefnið er veigamesta ritgerðin sem ég hef skrifað hér úti og fjallar um stöðu múslima í Vestur Evrópu í ljósi félagsvíddar Ninian Smart og guðfræðilegt mat á því hvernig kirkjan eigi að bregðast við innflytjendum úr hópi múslima og óskum þeirra um viðurkenningu.
Í morgun fékk ég í tölvupósti alvarlegar athugasemdir vegna orðalags og uppbyggingar ritgerðarinnar frá skrifráðgjafanum í Trinity, en ég fékk hana til að lesa yfir áður en ég skilaði. Ég notaði því hátt í 5 klst í dag í enduruppbyggingu, leiðréttingar á málfari og til að skrifa upp guðfræðilega matið.
Það verður að segjast að lesturinn og rannsóknin var mun auðveldari en skrifin sjálf, en nú er bara að bíða og vona hið besta.
2 thoughts on “Þá er það frá”
Lokað er á athugasemdir.
Elli minn
Til hamingju með að vera búinn að skila, varstu nokkuð efnislega ritskoðaður?
Nú sit ég í verkefnasúpu og lokritgerðayfirferð og dáist að yfirlesara þínum og þeirri vinnu sem þú lagðir í lagfæringar.
Kveðja
Tengdó
Nei, skriftarráðgjafanum (Writing Tutor) er uppálagt að skipta sér ekki af innihaldi skrifanna. Hér er eingöngu um að ræða ráðgjöf um málnotkun, framsetningu texta, stafsetningu og slíkt. Svona þjónusta við nemendur auðveldar mjög yfirlestur kennara.
Skriftarráðgjafinn gerði reyndar athugasemd um að flæði milli kafla væri ekki nægilega gott, sem olli því að ég ákvað að skera niður kaflann um 24 ára regluna og hvernig hún var sett í Danmörku og Íslandi gagngert GEGN múslimum.