Framhaldssagan um guluna

Á þriðjudaginn var fannst hjúkrunarfræðingnum í „eftirlitinu“ Tómas Ingi helst til gulur. Það varð úr að Jenný fylgdist sérstaklega vel með honum í sólarhring og á miðvikudaginn var síðan tekin sú ákvörðun að mæla „gulu-litarefnið“. Það reyndist hins vegar hægara sagt en gjört.
Heilsugæslan benti á sængurkvennadeild, þar var bent á skiptiborð Landsspítalans sem benti á barnalæknavakt í Domus Medica. Barnalæknavaktin benti á bráðavaktina á Barnaspítalanum eða sængurkvennadeild, bráðavaktin á Barnaspítalanum benti á heilsugæsluna. Það varð úr að hjúkrunarfræðingurinn á heilsugæslustöðinni, sú sem fannst Tómas gulur, tók að sér að finna einhvern og sendi okkur svo á bráðavakt Barnaspítalans.
Nú myndu flestir halda að allt væri orðið gott. Við fórum enda á Bráðavaktina á fimmtudegi, þar var tekið á móti okkur og ungur læknir náði að kreista nokkra blóðdropa úr hælnum á Tómasi Inga ofan í glas. Tómasi var ekki skemmt, en að þessu loknu fórum við heim. Við rannsókn kom í ljós hækkun á „gulu-litarefni“ svo nauðsyn reyndist að gera frekari rannsóknir, en nú kom babb í bátinn. Ungi læknirinn reyndist ekki hafa tekið nægt blóð úr hælnum. Við máttum gjöra svo vel að halda á ný á bráðavakt Barnaspítalans. Nú var það gamal vinnufélagi pabba, Sigurður Þorgrímsson, sem tók blóðið. Það var ekkert verið að stinga gat og kreista. Nú var tekin nál og stungið í æð á handlegg, engin vettlingatök þar á ferð. Nú líkur enda frásögninni. Sigurður hringdi klukkutíma eftir þetta til að tilkynna að líkast til væri engin hætta á ferðum, en við þyrftum að fylgjast með honum áfram.
Í stuttum máli. Það þurfti að taka blóð úr Tómasi Inga, til að kanna magn litarefnis. Það þurfti 8 símtöl og tvær ferðir á Barnaspítala Hringsins til að ljúka því verkefni.