Farin

Ég skutlaði Önnu, Jennýju og Tómasi til Baltimore í gær með viðkomu á Hersey’s Chocolate World. Þetta var rúmlega átta tíma akstur en við keyrðum fjóra tíma á laugardagseftirmiðdag, gistum í hótelbænum Breezewood aðfararnótt sunnudags, fórum þaðan til Hersey og loks til Baltimore.

Ég keyrði síðan áleiðis til baka í gærkvöldi, svaf í öðrum hótelbæ í Pennsylvaníu, aðeins 14 mílum austar en Breezewood, fór síðan í IKEA í morgun, keypti dót í nýja herbergið hans Tómasar, sem verður tilbúið þegar hann kemur heim á sunnudaginn og keyrði síðan um sveitir Ohio og Pennsylvaniu á leiðinni heim til Columbus. Það var svolítið sérstakt að keyra fram hjá viðvörunarskiltum um hestvagna á vegi þar sem leyfður er 50 mílna hámarkshraði og hlykjast um sveitirnar með tilheyrandi blindbeygjum. Ég sá hins vegar enga vagna að þessu sinni, enda var ég víst of sunnarlega í Ohio.

En hvað um það, ég er kominn heim, búinn að setja upp tölvuborð í stofunni, fyrir gamla Mac-ann og er núna að fara að snúa mér að svefnherberginu, líklega til að sofa fremur en taka til.