Komin til Íslands

Þá erum við komin á ástkæra ylhýra landið. Flugferðin gekk ágætlega. Tómas Ingi sofnaði áður en flugvélin komst á loft en vaknaði klukkutíma seinna og tók æðiskast, barðist um og reif af mér gleraugun. Ég fór með hann afturí vél og hann róaðist á endanum og sofnaði aftur. Þetta stóð yfir einmitt þegar verið var að deila út matnum og það endaði með því að ég fékk mér ekkert að borða.

Drengurinn svaf svo þar til um 2 tímar voru eftir af fluginu og þá ákvað ég að skipta á honum, enda var lyktin orðin all svakaleg. Tómas Ingi var hins vegar ekki sammála því að það þyrfti að skipta um bleyju og barðist um allan tímann inná llitla flugvélaklósettinu. Þegar ég loks kom á hann nýrri bleyju henti hann sér á gólfið og barði sér í klósetthurðina. Flugfreyjurnar bönkuðu uppá og þegar ein þeirra tók hann í fangið var Tómas loks til í að koma til mömmu sinnar og róaðist fljótlega eftir það og sofnaði aftur og svaf þar til við lentum. Anna Laufey var hins vegar algert draumbarn og náði sem betur fer að sofa heilmikið á leiðinni. Ég hins vegar dottaði nokkrum sinnum en náði engum almennilegum svefni (bjóst svo sem ekki við því heldur).

Pabbi tók á móti okkur á vellinum og við fengum brauð kleinur og snúða í Eyktarhæðinni. Ég og Tómas Ingi löggðum okkur síðan en Anna Laufey var alltof spennt til að nenna að sofa. En núna er Anna Laufey komin á fjölgreinanámskeið hjá Þrótti með Aþenu vinkonu sinni og við Tómas Ingi ætlum með mömmu í Húsdýragarðinn. Það er gott að vera komin heim.

One thought on “Komin til Íslands”

  1. Benni trylltist líka á flugvélaklósettinu á leiðinni út, eitthvað við flugvélaklósett sem er ekki að gera sig fyrir litla snáða.

Lokað er á athugasemdir.