Ævintýri Ella í Ameríku

Á föstudagshádegi lagði ég af stað í ævintýraför um Ameríku, þar sem lokahluti ferðarinnar er að sækja Jennýju og Tómas Inga á flugvöllinn í Baltimore. Upphaflega hafði ég ákveðið að fara á laugardagsmorgni, en þegar ég uppgötvaði að fyrsti áfangastaðurinn á ferðaplaninu var í tveggja tíma fjarlægð í suðvestur, meðan Baltimore er í háaustur ákvað ég að gefa mér betri tíma. Fyrsta stop á ferð minni var í verksmiðjusöluverslunarmiðstöð miðja vegu milli Columbus og Cincinnati. Þegar ég kom í mallið, sem er utanhús, vakti það furðu mína að allt verslunarplássið var autt ef undan er skilin Reebok búðin, en þangað var ferð minni heitið. Reyndar keypti ég ekkert. Þaðan hélt ég síðan á Creation Museum, en þeirri ferð verða við tækifæri gerð góð skil á elli.annall.is enda er safnið stórmerkilegt og varpar ljósi á trúarlíf þónokkurs hluta Bandaríkjamanna og það ljós er ekki bjart og fagurt.

Frá safninu keyrði ég síðan eftir syðsta hluta Ohio til austurs, inn í Vestur Virginíufylki og upp í Appalachia fjöllin. Eftir að hafa leitað gistingar í nokkra stund, fékk ég loks gistingu um miðnætti á hrörlegu vegamóteli í bænum Bridgeport. Ég reyndar svaf ekki lengi, trukkabílstjórarnir byrjuðu að þenja trukka um kl. 6:00 og kl. 8:00 var ég sjálfur lagður af stað í fjallaakstur. Mér gáfust ekki mörg tækifæri til að stoppa og virða fyrir mér náttúruna og/eða taka myndir en akstursleiðin var gífurlega fögur en ekki mjög fljótfarin, fjöll og dalir, smábæir og ár. Það var helst að trén skyggðu á útsýnið.

Eftir um 5 tíma akstur fór ég svo að nálgast höfuðborgina, ég komst þó ekki mikið hraðar yfir þó ég kæmist á hraðbrautir sem lágu beint í átt til borgarinnar, enda umferðarhnútar alls staðar, ég staldraði við í um klukkustund í risa-verksmiðjusöluverslunarmiðstöð þar sem ég keypti nokkuð af fötum, þó ekkert sem mig vantaði. Þaðan fór ég svo í IKEA til að fá mér sænskar kjötbollur og ákvað svo að fara yfir Bay-Bridge sem Mangi sagðist einhvern tímann hafa ekið yfir og væri svaka stór og mögnuð. Ég fór yfir brúnna og ákvað að gista austan megin, kíkja svo kannski á Atlantshafið í fyrramálið.

Það fór þó ekki eins og ætlað var, allt gistipláss í nánd við brúnna austan megin var bókað í nótt og fór svo að ég keyrði til baka yfir brúnna og fann Super 8 Mótel, í Annapolis. Þar var eitt reyklaust herbergi laust, reyndar aðeins dýrara en ég hefði kosið. Meðan ég var að ganga frá bókuninni á herberginu, kom inn í andyrið ungur maður, sem bar sig aumlega. Konan hafði farið með hann í óvissuferð í tilefni Feðradagsins sem er á morgun, bókunin á gistingu á öðru hóteli hafði eitthvað klikkað og nú væru góð ráð dýr. Hann gat ekki hugsað sér að vera í reykherbergi með konunni og fór svo að hann bauð mér $30 fyrir að skipta um herbergi við sig. Þar sem ég er bóngóður og herbergið hafði verið rétt rúmlega $30 dýrara en ég hafði planað að greiða, þá samþykkti ég tilboðið og ligg nú þreyttur í reykherbergi.

Verkefni morgundagsins er að taka það rólega, fara út á flugvöll um kl. 18:30, sækja mæðginin og keyra í einni striklotu til Columbus, rétt um 420 mílna leið (675 km). Það kemur hins vegar í ljós hvernig það gengur.

One thought on “Ævintýri Ella í Ameríku”

  1. Vona bara að heimferðin gangi vel hjá ytkkur.

    Anna Laufey var hálf aum í gærkveldi þegar hún átti að fara að sofa, en eftir smá lestur um hana Sossu sólskinsbarn var allt í lagi.

    Saknaðarkveðjur

    Anna (mamma, amma og tengdó)

Lokað er á athugasemdir.