Anna og Tómas í pössun

Ég og Jenný fórum í annað sinn á fótboltaleik með skólaliðinu í OSU. Ekki er um að ræða hefðbundinn fótbolta heldur ameríska íþrótt sem minnir fremur á rugby. Að þessu sinni fékk ég skólafélaga minn til að passa börnin frá kl. 10-15:30, en bæði er fótboltaleikurinn langur og það tekur sinn tíma að komast á staðinn með hinum rúmlega 100.000 áhorfendunum sem hafa miða á völlinn. Það er margt hægt að segja um húsbílana sem lagt var út um allt með risasjónvörpum og tilheyrandi, en mörg þúsund manns safnast saman á háskólasvæðinu og halda til í húsbílum og taka þátt í bílastæðapartíum meðan leikurinn varir.

En færslan var um pössunina. Anna var ekki sérlega spennt yfir barnapíunni og þegar við fórum sat hún í sófanum í GameBoy. Tómas hins vegar var í skýjunum. Hann og Nick léku sér í boltaleik og bílaleik og Tómas sagði honum frá hinu og þessu af miklu kappi. Þegar ég og Jenný vorum komin í skó, sagði Tómas „bæ, bæ“, hélt áfram að leika við Nick og kíkti ekki einu sinni út í glugga til að sjá okkur fara í bílinn.
Þegar við komum heim var Nick að ljúka við að skipta á Tómasi sem var tiltölulega nývaknaður og skemmti sér hið besta. Anna hafði hins vegar fengið að fara í heimsókn til vinar síns.
Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum karlkyns barnapíu hingað heim til að passa krakkana og það er áhugavert hvernig börnin brugðust við á mismunandi hátt, en venjulega hefur Tómas verið hálfaumur en Anna spennt yfir því þegar við höfum fengið pössun.