Vá, það hefur aldeilis verið þögult hér á hrafnar mjög lengi. Við höfum svo sem ekki setið auðum höndum en rit-andinn hefur ekki komið yfir okkur að undanförnu.
Það helsta sem gerst hefur síðan síðast var ritað:
26. – 29. október: Við fórum til Chicago síðustu helgina í október. Við fórum keyrandi og gistum á hóteli í miðbænum, mitt á milli Sears turnsins og Michican avenue. Við fórum að sjálfsögðu upp í Sears turninn stóra, löbbuðum um miðbæinn og niður að Michican vatni og sáum meðal annars Þúsaldargarðinn (Millenium Park) og skemmtilegt spegil listaverk kallað Cloud Gate. Við fórum á Navy Pier, barnasafnið og fengum gott að borða. Við fórum á Field museum sem er besta vísinda- og náttúrufræði safn sem ég hef farið á. Við sáum t.d. alvöru risaeðlu beinagrindur og krakkarnir fengu að leika sér og snerta alvöru steingerfinga. Hápunktur ferðarinnar fyrir Tómas Inga var samt þegar við fórum einn hring (The Loop) með lestinni í miðbænum. Hann réði sér varla af spenningi og hrópaði í sífellu: „tjú-tjú-train“!
31. október: Haldið var upp á Hrekkjavöku með því að klæða börnin í grímubúninga og labba milli húsa í Bexley og heimta nammi. Anna Laufey var klædd eins og engill en Tómas Ingi var klæddur sem slökkviliðsmaður. Tómas Ingi var ekki lengi að átta sig á þessu og vildi fara í öll hús með körfuna sína. Þegar karfan fór að þyngjast bauð ég honum marg oft að halda á körfunni fyrir hann en hann harðneitaði og sagði „mine!“ (isl. „minn!“) og skjögraði áfram með körfuna yfirfulla af nammi.
Í byrjun nóvember: Við Elli horfðum á OSU fótbolta liðið mala Wisconsin. Helgina eftir fór Elli á Luther Bowl, sem er keppni guðfræðideilda í Fánabolta (vinalegri útgáfa af Amerískum fótbolta) og OSU spilaði við Illinois. Elli og félagar töpuðu fyrir Chicago liði og komust ekki upp úr riðlinum sínum sem rímaði við tap OSU fyrir Illinois (Chicago er í Illinois fylki).
Seinnipartur nóvember mánaðar: Mamma og Pabbi komu í heimsókn yfir Þakkargjörðarhátíðina. Mamma kom 17. nóv en Pabbi kom þann 21. – daginn fyrir hátíðna. Okkur var boðið í alvöru Amerískan Þakkargjörðar kvöldverð hjá Steina og Kristínu. Það var voða gaman hjá öllum nema mér því ég varð eftir heima með ömurlega gubbupest. Ég fékk þó sendar kræsingarnar sem ég borðaði daginn eftir og get því vitnað um að maturinn var ljúffengur. Eftir Þakkargjörðarhátíðina var ekki setið auðum höndum, enda Pabbi mættur á svæðið. Við fórum í gönguferð um Darby Creek garðinn sem er hér rétt utan við bæinn. Við sáum villtu ljósin í dýragarðinum og við fórum að skoða Helli gamla mannsins í suð-austur Ohio. Við fórum á listasafnið og við pabbi fórum á körfuboltaleik, OSU á móti VMI (Viginia Military Institute), sem OSU vann auðvitað! Mamma og Pabbi fóru svo til Boston á þriðjudagsmorgun.
Jæja, nú er ég búin að pára það helsta og nú skora ég á Ella að setja inn myndir frá nokkrum af þessum ævintýrum okkar.
Það eru komnar 38 myndir inn í möppuna haustmyndir.
Vá takk fyrir þetta, greinilega nóg að gera. Kannski Tómas Ingi geti kennt Benna að labba á milli húsa og heimta nammi (nema Benni veit að hann á síðan að gefa mömmu nammið)
Kveðja
Guðrún Laufey og Benni 1árs
Gaman að fá fréttir af ykkur. Greinilega nóg að gera. Kv. Drífa