Nú fer önninni hjá mér alveg að ljúka. Ég sit nú í tölvuveri Tölfræðideildarinnar og bíð eftir að galdraforritið Merlin skili af sér niðurstöðum. Ég er að keyra stikalausa tengigreiningu (non-parametric Linkage Analysis) á litning númer 4 og yfir 140 ættartré með nokkrum skjúklingum. Forritið er nú ekki eins mikið galdraforrit og nafnið gefur til kynna því þetta tekur alveg óratíma (nema að verið sé að vísa í taugaveiklaða Merlin í Shrek 3?).
Ég þarf bara að fá niðurstöðurnar og henda inní skýrslu og þá er ég búin með einn kúrs. Ég er meira að segja búin að skrifa umræðukaflann þar sem ég geri ráð fyrir að ekkert finnist marktækt á litningi 4 frekar en á litningi 9 eða 20. Kannski full svartsýnt en svoleiðis er það nú samt oftast.
Framundan er svo lokapróf í stikalausri tölfræði (þetta er alveg stikalaus önn hjá mér!) á miðvikudaginn og fara yfir lokapróf hjá nemendum mínum á þriðjudagskvöld og miðvikudag. Svo hitti ég leiðbeinandann minn á fimmtudag og þarf þá helst að vera búin að fatta uppá sniðugu stigskiftu Bayesísku líkani – ekki þó stikalausu.
Ég er farin að hlakka mikið til að koma til Íslands. Við Tómas Ingi komum að morgni 13. desember en Elli og Anna Laufey að morgni 21. desember. Við förum svo til baka, öll saman, á þrettándanum.
Hlökkum mikið til að hitta ykkur. Ég fer í ,,sumarfríið frá 2006″ eftir viku og verð í fríi fram í miðjan janúar, þannig að hér verður nægur tími um jólinn.
Guðrún Laufey og Benni (sem fer reyndar ekki í ,,frí“ fyrr en 20. des).