Skólablogg í lok vetrar

Nú er vetrarönnin loks á enda og ég byrja í vorfríi í dag. Þessi önn var ansi strembin, ég var í þremur kúrsum og í leskúrsi með leiðbeinandanum mínum auk kennslunnar.

Kennararnir mínir þessa önn voru allir ungir – þ.e. á aldri við mig. Ég tók kúrs í slembiferlum (Stochastic processes) sem var síðasti skyldukúrsinn – fyrir utan að sitja fyrirlestraröð um ráðgjafarstörf í tölfræði. Annar kúrsinn var um alhæfð línuleg líkön (Generalized Linear models). Glöggir lesendur muna líklega að ég notaði slík líkön í Masters ritgerðinni minni svo ég var á heimavelli þar. Ég lærði samt heil mikið nýtt enda var kennarinn frábær. Þriðji kúrsinn var um wavelets (kann ekki íslenskt orð yfir það). Wavelets hafa lengi verið notaðar í myndvinnslu og í margskyns verkfræðilegum tilgangi og hafa á undanförnum árum rutt sér til rúms í tölfræði. Þetta var mjög áhugavert efni en ansi snúið og þar sem það voru engin heimaverkefni (bara umfjöllun um eina grein í lokin) þá fór þetta mest allt fyrir ofan garð og neða hjá mér. Vonandi get ég tekið mér tíma til að setja mig betur inn í þetta efni seinna.

Ég á nú bara eftir að fylla uppí valkúrsa – á eftir 13 einingar í vali sem þýðir 4 eða 5 kúrsar. Það eru samt engin tímamörk á því hvenær það þarf að gerast svo ég hef ákveðið að héðan af mun ég í mesta lagi vera í einum kúrsi á önn. Ég er búin að fá alveg nóg af því að vera á haus í heimadæmum og próflestri. Á næstu önn mun ég bara taka einn kúrs um hönnun tölvu tilrauna (Design and Analysis of Computer Experiments) – annað efni með mjög sterka verkfræðilega tenginu. Það er frekar frábrugðið því sem ég mun fást við í doktorsverkefninu en þetta er skemmtilegt svið og það er sterkur hópur hér sem fæst við þetta.

Annars er það a frétta að næstu tvö árin mun ég starfa við rannsóknir í stað kennslu svo ég verð RA í stað TA. Ég mun starfa með Dr. Mark Berliner sem er hvíthærður, hreinræktaður Bayes-isti og hundaeigandi. Hann mun líka verða leiðbeinandi minn í doktorsverkefni. Planið er að ég geti notað eitthvað af rannsóknarvinnunni sem hluta af doktorsritgerð. Ég er mjög spennt að komast loksins af stað í rannsóknir. Verkefnið sem ég mun starfa við er samstarfsverkefni margra aðila, meðal annars vísindamanna hjá National Center for Atmospheric Research. Markmiðið er að búa til Bayes-ískt líkan af hitastigi jarðar síðustu 2 þúsund árin og sérstaklega að fá gott óvissumat. Gögnin sem við höfum eru fyrst og fremst borholur (úr bergi) og trjáhringir og hluti af verkefninu verður að finna leiðir til að tvinna saman gögn úr mismunandi áttum. Ég mun örugglega blogga meira um þetta seinna :-).

One thought on “Skólablogg í lok vetrar”

Lokað er á athugasemdir.