Skórnir mínir

Eftir að Jenný og Tómas héldu til Íslands í desember fór ég og keypti mér tvö skópör á útsölu í Dick’s Sporting Goods. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað að Jenný er sannfærð um að annað skóparið sé alveg ótrúlega ljót og algjörlega óásættanlegt að ég gangi um í því. Ég bendi á móti á að skórnir hafi verið á útsölu og séu einstaklega þægilegir og ég hef auk þess bent Jennýju á að það sé ekki eins og fólk taki eftir í hvernig skóm ég er. Alla vega er ég ekki vanur því að fólk komi til mín og ræði um klæðaburð minn og hvað þá skófatnað.
Þetta gæti þó verið að breytast, þannig sá fyrir nokkrum dögum einn prófessor í skólanum mínum ástæðu til að hrósa skónum mínum sem Jennýju finnst svona ljótir, og einn nemandi í skólanum hefur nokkrum sinnum nefnt skóna mína og hversu „grand“ þeir eru.
Þessi skóaðdáun samferðafólks míns náði þó líklegast hámarki í kvöld, þegar að einn kvöldstarfsmaður Kroger-matvöruverslunarinnar, eldri maður sem er alltaf á vakt við sjálfsafgreiðslukassana og ég hef aldrei heyrt segja annað en „signature“ og „whats wrong“ í þau tvö ár sem ég hef skroppið í búðina á kvöldin, sá ástæðu til að ræða við mig um skóna mína og spyrja hvort ég hefði keypt þá til að vera viss um að týnast ekki í snjóstormi.

4 thoughts on “Skórnir mínir”

  1. Í fyrsta lagi voru skórnir sem ég var í um jólin grænbrúnir en ekki bláir og í annan stað þá finnst Jennýju þær ekki jafn ljótir og hinir skórnir sem ég keypti.

  2. Umræddir skór eru eldrauðir „crocs“ skór. I hvert skipti sem ég sé þá dettur mér í hug lagið „Rúdolf með rauða nefið“ nema að í þessu tilfelli væri viðeigandi að syngja „Elli í rauðu skónum“.
    Ég skal reyna að ná mynd af þessum óköpum.

  3. Ég hef spjallað við fólk um skóna þess en aðeins ef um súper flotta skó er að ræða. Crocs er nú slæmt svo þeir séu ekki rauðir í þokkabót en þegar ég stal flottu bleiku skónum hennar Önnu Laufeyjar þegar ég hljóp út í rusl komst ég að því að þeir eru massa þægilegir (vona að Önnu sé sama þó ég hafi laumast í skóna hennar er svona laumu crocks aðdáandi).

Lokað er á athugasemdir.