New York ferð


Það er nú kominn tími til að segja aðeins frá húsmæðraorlofinu í New York. Í stuttu máli þá var þetta frábær ferð. Hér má finna myndir frá ferðinni.

Við Dabba gistum á Milford Plaza, stóru og gömlu hóteli í miðju leikhúshverfinu, rétt hjá Times Squre. Við fórum í útsýnisferðir bæði að degi og kvöldi til og löbbuðum svo mikið að við vorum alveg úrvinda á hverju kvöldi. Við römbuðum oft á góða eog skemmtilega veitingastaði t.d. Scarlatto sem var uppáhald Döbbu, Ellen’s Stardust Diner fyrir þá sem vilja slá í gegn á Brodway og mexikanski staðurinn Zona Rosa.

Við lentum í miklum hita og raka á mánudagskvöldi 9.júlí, ég í Newark en Dabba á JFK. Á þriðjudeginum röltum við up nágrennið, fundum Skechers búð, sáum Borgarbókasafnið að utan og Bryant Park. Við hittum mann frá Ghana með gulltönn sem bað Döbbu að giftast sér en við keyptum bara 3ja daga miða í skoðunarferða-strætó. Við fórum uppá top á Empire State byggingunni og kíktum aðeins í stærstu búð í heimi, Macy’s. Sennipartinn röltum við uppá Columbus Circle, kíktum í flottustu Applebúð sem ég hef séð (ég týndi hulstrinu sem ég keypti þar 🙁 ) og hittum pabba og mömmu um kvöldið.

Á miðvikudeginum notuðum við miðan í skoðunarferð-strætóinn og þá slógust pabbi og mamma með í för og líka fjórir aðrir Skagfirskir söngfuglar. Við fórum út á miðri leið og löbbuðum í gegnum litlu Ítalíu (ein gata) og Kínahverfið og þaðan niðrá Ground Zero, þar sem tvíbura turnarnir stóðu áður. Við Dabba lætum stjana við okkur í handa- og fótsnyrtingu meðan pabbi og söngfuglarnir fóru í siglingu. Við Dabba fórum svo í bráðskemmtilegan kvöldrúnt með skoðunarferðar-strætónum. Bílstjórinn var í sinni jómfrúar ferð og viltist á leiðinni og leiðsögumaðurinn varð að grípa inní svo hann færi ekki á móti einstefnu eða í neðanjarðargöngin. Leiðsögumaðurinn var hress og gerði bara létt grín að þessu og allir höfðu bara gaman af (nema kannski bílstjórinn).


Fimmtudeginum eyddum við Dabba í Central Park. Þvílíkur griðarstaður í þessari erilsömu borg, og mikið svakalega er hann stór!. Við tókum strætóinn góða í skoðunarferð á efri hluta Manhattan, m.a. uppí Harlem, og fórum úr strætónum efst í Central Park. Það tók okkur allan daginn að labba eftir garðinum endilöngum en við héldum okkur bara austan megin svo við sáum varla helminginn af garðinum. Þarna voru krakkar í hafnabolta og amerískum handbolta (veggtennis með engum spöðum), barnapíur í massavís og skokkarar útum allt. Við sáum grilla í Guggenheim safnið í gegnum stillansa og fórum í gjafavörubúðina í Metropolitan listasafninu (þar er loftkæling!). Við enduðum daginn á að fara hring í garðinum í hestvagni.

Á föstudags morgun ákvað Dabba að sigla til Staten Iland til að sjá betur Frelsis styttuna. Ég rölti hinsvegar með pabba og mömmu niður 5th avenue og skoðaði í fínu gluggana hjá Prada, Luis Vuitton og fleiri slíkum. Við skoðuðum Sankti Patreks Kirkjuna, Borgarbókarsafnið (líka að innan í þetta sinn) og Grand Central Terminal. Við fengum okkur hressingu á kaffihúsi hjá Prometheusi við Rockefeller Center (þar sem skautasvellið er á veturna). Þegar mamma fór á æfingu fórum við pabbi út í Brooklyn og löbbuðum Brooklyn brúnna til baka til Manhattan. Það var frábært útsýni þaðan yfir Manhattan og gaman að labba þar yfir.
Um kvöldið ákváðum ég, Dabba og pabbi að fara á Brodway sýningu. Við fundum ekki staðinn sem selur miða samdægurs á hálfvirði en hittum sölumann á götu sem seldi okkur miða á Off-Brodway sýninguna altarisdrengirnir. Við fórum út að borða á undan á voða fínan ítalskan stað og þjónustustúlkan sagði að þar væri eldað á gamla mátan, þ.e. hægt. Við Dabba fengum fína pasta rétti en pabbi sá ekki að melónan og skinkustrimlarnir sem hann fékk væru eldaðir á gamla mátann. Altarisdrengirnir komu á óvart, sýningin var mjög fyndin og við skemmtum okkur vel.

Á laugardeginum var pabbi búin að átta sig á neðanjarðar lestarkerfi New York borgar svo á meðan mamma var á æfingum fór hann með okkur Döbbu út um alla borg. Við sáum risaeðlur í Náttúrgripasafninu, skoðuðum Imagine minnimerkið um John Lennon í Strawberry Fields í Central Park og fórum uppí Harlem. Um kvöldið hlustuðum við á Diddú, Bergþór og fullt af íslenskum kórum undir stjórn Garðars Cortes flytja Carmina Burrana í Carnegie Hall. Það var mikil upplifun og flutningurinn tókst með afbrigðum vel. Við skemmtum okkur vel með kórmeðlimum í veisluhöldum á eftir.

Sunnudagurinn var heimferðardagur hjá mér og Döbbu. Við fórum með pabba og mömmu á nýlista safnið (MoMA) og sáum sýningu Ólafs Elíassonar. Sýningin var bæði flott og skemmtileg. Við röltum svo bara um markaðinn á 6th avenue þar til tími var til kominn að leggja af stað á flugvöllinn.