Nú er vetrarrútínan að hefjast hérna á heimilinu, en Anna byrjaði í skólanum í dag. Tómas er á öðrum degi í aðlögun á nýrri deild í leikskólanum en hann er að færast af Child Care yfir á Pre-K deild. Jenný er að vinna og læra og á morgun funda ég með trúfræðikennara út í skóla um leskúrs í kirkjufræðum (Ecclesiology) og má segja að þá byrji önnin mín, þó formlega byrji skólinn minn ekki fyrr en eftir helgi.
Gráðan sem ég er að fara að taka kallast Master of Sacred Theology (STM) og er eins árs viðbótarnám við það sem venjulega er kallað applied master hér í BNA (Applied master væri líklega kallað kandídatspróf á Íslandi). STM-námið byggist að 1/4 á rannsóknarverkefni, helmingurinn eru kúrsar á viðkomandi fagsviði og 1/4 eru tengdir kúrsar á öðrum sviðum. Námið mitt er á mörkum praktískrar guðfræði/embættisfræða og kirkjufræða. Reyndar kom í ljós þegar ég sótti um að til að ljúka námi með STM-gráðu þá þarf ég að taka þrjá undanfarakúrsa sem telja ekki í náminu mínu. Þannig verð ég nú í haust í tveimur kúrsum sem ekki teljast til nýju gráðunnar. Annar er grunnkúrs í Gamlatestamentisfræðum með áherslu á spámenn og spekirit og hinn fjallar um lúthersku kirkjuna í BNA. Þeir kúrsar sem hins vegar teljast hluti af náminu eru námskeið um aðferðafræði í rannsóknum, fyrrnefndur leskúrsi í kirkjufræðum og námskeið við The Ohio State University um samstarf mismunandi fagstétta á sviði siðferðilegra álitamála.
Þess utan verð ég áfram að starfa sem Project Specialist hjá Healthy Congregations, Inc. og nú í haust verð ég aðstoðarkennari í námskeiði sem kallast Pastor as Leader (Prestur sem leiðtogi), en það er fjórða árs námskeið fyrir prestsnema í skólanum og fjallar um stjórnunarkenningar, samstarf í safnaðarstarfi og allt annað sem prestsnemar þurfa að vita en kemur ekki fram í öðrum kúrsum. Auðvitað er hálfkómískt að ég skuli vera beðin um að vera aðstoðarkennari í þessum kúrsi þar sem ég þekki ekkert of vel til kirkjunnar í BNA og verð seint prestur. Á móti kemur hins vegar að þetta er á mínu fræðisviði og vandamál í safnaðarstarfi eru um margt þau sömu í Toledo, Garðabæ og Grensáskirkju.