Þá er enn eitt skólaárið byrjað og ég þarf að venjast því að kallast fjórða árs nemi. Ég hef reyndar verið að vinna á fullu undanfarnar vikur bæði í mínum eigin rannsóknum og RA-vinnunni minni. Ég mun auðvitað að halda áfram að vinna í því en nú bætast við þrír kúrsar. Hér koma lýsingar á kúrsunum með mjög lauslegum þýðingum á enskum heitum.
Tölfræðilegar reiknikúnstir (Statistical Computing) fjallar um allt frá einvíðri bestun að Markov keðju Monte Carlo aðferðum með viðkomu í Monte Carlo heildun og slembitölu framleiðslu. Það verður slatti af heimavinnu, en mér líst vel á kennarann og þetta lítur út fyrir að verða mjög gagnlegur kúrs.
Rúmleg tölfræði (Spatial statistics) fjallar um líkön og aðferðafræði sem notuð eru til að lýsa ferlum þar sem staðsetning hefur merkingu. Grunn hugmyndin er einfaldlega að hlutir sem er nálægt hver öðrum eru líkari en þeir sem eru fjarri. Þetta er mjög spennandi svið og ég hlakka til að dýfa mér í það. Kennarinn er aðal stjarna deildarinnar og höfundur kennslubókarinnar og þekktur fyrir að vera mjög klár en frekar sérlundaður.
Að lokum er ég í einnar einingar kúrs um ráðgjafastörf í tölfræði. Þetta er síðasti skyldukúrsinn minn og ég hefði nú átt að taka hann fyrir löngu en hann passaði bara aldrei inní prógramið hjá mér. Sem betur fer er bara einn fyrirlestur í viku og engin heimavinna.
Það verður sem sagt nóg að gera! En þess má líka geta að eftir þessa önn á ég bara eftir að taka 8 einingar (3 kúrsa) í viðbót í valkúrsum. Og ég hef amk. 5 annir til að taka þá. Ég vona bara að bestu kúrsarnir verði ekki allir í boði í einu 🙂 .
Ps. Og svo var ég að skrá mig á ráðstefnu (workshop) í Boulder, Colorado, í Október og mun þá missa hálfa viku úr skólanum. Ráðstefnan verður haldin hjá NCAR, sama stað og ég var í ágúst og RA-verkefnið mitt fjármagnar ferðina!
Anna Laufey er ekkert smá flott með fiðluna, bíð spennt eftir tónleikaboði.