Það er ekki auðvelt að einbeita sér að próflestri um spádómshefð í Júdeu og Ísrael á árabilinu 722-586 fyrir Kristsburð, þegar spádómar svartsýnustu manna eru að rætast um efnahagslífið á Íslandi. Reyndar lítur ástandið betur út á Main Street í dag en við óttuðumst í gær en samt sem áður er eitthvað við heimsendaboðskap Geirs, sem kemur í veg fyrir að ég geti einbeitt mér að heimsendaboðskap Amosar, Jeremía og Hósea.
Reyndar má segja lán í óláni að við náðum að millifæra háa upphæð á fimmtudaginn hingað til BNA sem við höfðum keypt á genginu 94. Til að vera viss um að ná endum saman fram yfir áramót, hringdi ég síðan í BYR í dag og keypti aðeins fleiri dollara á genginu 111,23 og bað um að þeir yrðu símsendir í snatri. Við erum því í góðum málum fram í janúar þegar við fáum námslánin okkar greidd og gerum ekki ráð fyrir að standa í frekari gengisviðskiptum fyrr en þá. Námslánin okkar eru reiknuð út í dollurum m.v. framfærslutöflu LÍN en greidd út í íslenskum krónum í samræmi við gengi þess dags sem við skilum námsárangri. Þannig að hrun gengisins hefur þau áhrif að skuldir okkar við LÍN í íslenskum krónum aukast gífurlega, en framfærsla okkar meðan við erum í námi er tryggð.
Það er einnig ljóst að við þurfum að leggja VISA og MasterCard kortunum okkar frá Íslandi, enda rukkar Valitor í dag 166.57 krónur fyrir dollarann þegar við notum VISA og MasterCard rukkar 165.53 krónur fyrir dollarann. Til að útskýra hvað þetta þýðir í raun er gott að taka dæmi af hinni stórundarlegu mynd SpeedRacer sem ég keypti um daginn fyrir Tómas á Amazon. Listinn sýnir hvað myndin kostar í íslenskum krónum miðað við mismunandi gengi:
Gengið þegar við fluttum til BNA (27.12.05) 928 krónur
Gengið þegar við flugum frá Íslandi í sumar (7.8.2008) 1.287 krónur
Gengið á millifærslunni á fimmtudaginn (3.10.2008) 1.503 krónur
Gengið á millifærslunni í dag 1.779 krónur
Gengið ef ég hefði greitt með MasterCard í dag 2.647 krónur
Gengið ef ég hefði greitt með VISA í dag 2.663 krónur
Það er rétt að geta þess að ég notaði VISA kortið mitt til að borga myndina á Amazon, enda hefur það verið skráð hjá Amazon sem greiðslumiðill í mörg ár, þangað til ég tók það út í gær. Ég var rukkaður um myndina á VISAreikningnum mínum þann 15. september og borgaði 1.480 krónur fyrir. Ég held að þetta lýsi betur en flest annað hvernig þróunin hefur verið síðustu sólarhringa og ég verð að viðurkenna að það er ofar mínum skilningi hvernig Seðlabankinn ætlar að halda genginu föstu í þessum aðstæðum.
Þakka guði og góðum vættum að ég var í Boston fyrir þrem vikum síðan. Flestar gjafir út árið komnar í hús, nægar birgðir af nýjum fötum á alla og húsfreyjan þarf ekki að versla sér meik og maskara og aðrar lífsnauðsynjar á okurprís.
Svo er það spurning hvort að verslunarferð okkar hafi verið það sem endanlega gerði út um íslenska hagkerfið.