Við Elli fórum á OSU-Michigan leikinn í gær. Við keyrðum krakkana til Steina og Kristinar um 10 leytið og Tómas Ingi var yfir sig glaður að sjá Kristinu yngri.
Leikurinn byrjaði kl 12 og stóð til rúmlega 3. Hitastigið var -1°C en sem betur fer var engin úrkoma. Við vorum vel klædd, í lopasokkum, lopapeysu (ég) og flíspeysum (Elli) en okkur var samt frekar kalt, enda vorum við ekki eins æst í fagnaðarlátunum og sumir aðrir á vellinum.
University of Michigan er erkióvinur Ohio State University (í Amerískum fótbolta) og þetta er alltaf aðal leikur ársins. Síðasta vika var „BEAT MICHIGAN“ vika sem kom fram jafnt í sjónvarpi og á strætisvögnum. Leikskólinn hans Tómasar hvatti alla til að mæta í rauðum fötum á föstudaginn og það var mikið talað um Buckeyes. Það er pínu fyndið að þetta er frekar einhliða rígur hér í Ohio. Michigan aðdáendur eru alls ekkert uppteknir af þessum leik enda er þeirra aðal andstæðingur nágranninn Michigan State University.
En við unnum og það var voða gaman að upplifa æsinguna og spenninginn á vellinum. Á myndinni til vinstri hér að ofan má sjá dátana sem alltaf sjá um að flagga stóra fánanum. Þeir gerðu armbeygjur í hvert sinn sem OSU skoraði, jafn margar og stigin voru mörg. Myndin til hægri er af lúðrasveit skólans að mynda „script Ohio“ sem er ómissandi hluti af hverjum leik. Lúðrasveitin spilar á öllum leikjum liðsins og fylgir þeim líka á útileiki.