Gleðileg jól!

Rétt í þessu var ég að velta fyrir mér að í ár er 10 aðfangadagur Önnu Laufeyjar og ein af fáum hefðum sem hún hefur náð að upplifa alltaf er að fá alltaf möndluna úr möndlugrautnum á diskinn sinn. Á þessum tíma hefur hún verið með foreldrum sínum á aðfangadag á Tjarnargötu (11 mán), á Öresundskollegiet (1 árs) Kambsvegi (2 og 3 ára), í Stóragerði (4 og 5 ára), í Eyktarhæð (6 ára), hér í Bexleybæ (7 ára), aftur í Eyktarhæð (8 ára) og loks nú í Bexleybæ (9 ára). Með öðrum orðum hún hefur aldrei haldið jól oftar en tvisvar á sama stað. Það eina sem er stöðugt fyrir utan möndluna er að hún er bæði með pabba og mömmu og síðustu fjögur ár, hefur Tómas Ingi slegist í hópinn. Þetta er alsendis ólíkt mínu uppeldi en ég hélt jól á sama hátt í tugi ára á sama stað með sama fólkinu.
En hvað um það, jólin eru að koma, börnin eru spennt, þó fyrirhuguð Disneyferð hafi þónokkur áhrif á spennustigið, og eftir nokkrar mínútur verður byrjað á aðgerð (e. operation) „Íslenskt lambakjöt í bláberjahjúp“.

Gleðileg jól öll sömul!