Styttist í vorfrí

Nú þegar afmælum er lokið þá er næsta verkefni að undirbúa sig fyrir vorfrí. Líklegast verður samt minna um frí en nafnið gefur til kynna. Þannig er Jenný á fullu í rannsóknum og ég tek próf í vikunni eftir vorfrí.
Við hyggjumst samt taka okkur eitthvert frí, og skreppa í kosningaferðalag, en nálægustu kjörræðismenn eru í Louisville í Kentucky eða Detroit, Michigan. Það er ekki ósennilegt að ferðin verði einnig notuð til að koma við í IKEA til að kaupa rúmbotn fyrir kojuna hans Tómasar en fyrir nokkrum vikum veittum við því athygli að ein spýtan í botninum hans var í sundur.
Önnur verkefni í vorfríinu eru síðan þátttaka í Íslendingakvöldi Skandínavíufélagsins og tilraun til að fara á íshokkíleik hjá Columbus Blue Jackets, en fyrr í vetur fékk ég 8 ókeypis miða út í matvörubúð, þegar ég keypti pepsidósir. Fjórir af miðunum átta voru á leik 3. mars, en vegna veikinda fórum við ekki og stefnan er því að nýta seinni fjóra miðanna síðasta sunnudaginn í mars, sem jafnframt er einn síðasti leikdagurinn keppnistímabilsins.

One thought on “Styttist í vorfrí”

Lokað er á athugasemdir.