Nú er orðið ljóst að ég næ ekki að klára ritgerðarskrif í STM-náminu á þessu misseri. Af þeim sökum ræddi ég við umsjónarkennarann minn, alþjóðafulltrúann og skráningarstjóra skólans míns í dag til að tilkynna þeim að ég gerði ráð fyrir að vera nemi á vormisseri. Ég var búin að hafa samband við LÍN og hef rétt á lánum fyrir einingar sem ég tek í vor. Þetta þýðir í sjálfu sér ekki annað en að í stað þess að ég reyni að finna vinnu hér úti frá mars 2010 (og með atvinnuleyfi til mars 2011), þá verð ég skráður í skólann fram í maí 2010, og fæ síðan atvinnuleyfi frá júní/júlí 2010 til júní/júlí 2011.
Ég mun taka tvo kúrsa á vormisserinu og verð þannig í tæplega 50% námi. Annar kúrsinn er þriggja vikna kúrs í janúar um safnaðarstarf og þjónustu. Fyrsta vika námskeiðsins verður í Littleton Colorado, önnur vikan á Haiti í Karabíska hafinu og síðan verður lokavikan aftur í Colorado. Hitt námskeiðið er hefðbundnara, kennt í Biblíudeildinni við Trinity, með einum fyrirlestri í viku frá febrúar fram í maí, og fjallar um trúarlíf við Miðjarðarhafið á fyrstu og annarri öld eftir Krist, í ljósi skrifa Páls postula.
Bæði þessi námskeið hafa snertifleti við ritgerðina mína og ég vona að þau gefi skrifum mínum aukna dýpt. Vissulega var þetta ekki upphaflega planið, en sumarið nýttist ekki eins og ég ætlaði. Ég þurfti að taka einu námskeiði meira á haustmisseri en ég planaði vegna reglugerðar um erlenda stúdenta og þá hefur aðstoðarkennarahlutverkið tekið meiri tíma en ég gerði ráð fyrir og verður enn tímafrekara í nóvember og desember. En hvað um það, ég og umsjónarkennarinn vorum sammála um að ritgerðin yrði væntanlega betri fyrir vikið og það hlýtur að vera það sem skiptir mestu máli. 🙂