Mikill dagur

Dagurinn í gær, 5. janúar, var stór dagur hér hjá okkur í Bexley-bæ. Jenný fór með Önnu í skólann í morgun ásamt Tómasi Inga meðan ég fór til að skammast í TimeWarner Cable vegna netleysis. Afgreiðslan á Alumn Creek reddaði mér snarlega og ég hélt heim til að tengja. Meðan ég var að tengja komu svo menn frá Sears með þvottavél og þurrkara og settu upp í kjallaranum, en við pöntuðum þessar fínu Kenmore græjur á netinu í upphafi árs, eftir að hafa eytt tveimur tímum á gamlársdag í að ræða við sölukonu í Sears og Tuttle Crossing.
En það var ekki nóg að fá netið, þvottavél og þurrkara. Í gærmorgun gekk ég frá ökutækjatryggingu fyrir Hyundai Sonata árg. 2002, sem við síðan fórum og keyptum seinnipartinn. Þessi glæsikerra er nú úti á bílastæði hér við East Main Street enda styttist í að við þurfum að skila bílaleigubílnum okkar. Þetta voru nokkuð erfið kaup, enda ekki nægilega háar heimildir á kortunum okkar frá Íslandi, til að kaupa heilan bíl og það var ekki fyrr en í fyrradag sem Jennýju tókst að opna bankareikning í landi frelsisins. Það gekk þó að mestu upp, Sigurbjörg hjá SPV í Síðumúla, brást kröftuglega við í gærmorgun og peningarnir voru komnir á reikninginn okkar hjá BankOne um kl. 16 að staðartíma í dag. Að vísu neitaði bílasalinn að taka við ávísuninni okkar, en við fengum nú bílinn samt. Þurfum hins vegar að kíkja til bílasalans um helgina og gera upp.
Nú erum við komin með rúm, sjónvarp og kapalkerfi (sem reyndar er meira og minna í lamasessi, hvernig væri að Ólafur Jóhann hætti að skrifa bækur og reyndi að sinna vinnunni sinni hjá TimeWarner). Við höfum bíl, bílstól og kerru, þvottavél og þurrkara, örbylgjuofn og farsíma. Næst á dagskrá er síðan fartölva fyrir Jennýju, skrifborð og stólar fyrir þær mæðgur, sófi, sjónvarpsskápur, skiptiborð og eldhúsborð og stólar.
Ef allt gengur á sama hraða og hingað til má ætla að við verðum búin að koma okkur fyrir um miðjan mars.

2 thoughts on “Mikill dagur”

  1. Eru ekki til „family start kit“ með bíl, fartölvu, þvottavél, hárþurku og poppvél í WalMart?

  2. Það ætti auðvitað að vera þannig. Við höfum einmitt verslað mikið í WalMart, en þó aðallega í Target. Við höfum farið þrisvar sinnum í stórinnkaup þar (pottar, diskar, ruslafötur, þvottakörfur, klappstólar, borð, hillur o.s.fr.) Við eigum þó enn eftir að versla öll stór húsgögn eins og sófa, skrifborð og eldhúsborð (notum lítil plastborð núna til bráðabirgða). Amersík húsgögn virðast líka vera íburðarmeiri en við eigum að venjast – okkur vantar náttúrlega bara IKEA 😉

Lokað er á athugasemdir.