Jóla-óskalisti

Fyrir nokkrum dögum ræddi ég við Önnu um hvað hana langaði í jólagjöf þetta árið. Hún að sjálfsögðu hafði ýmsar hugmyndir, sem hafa endurtekið sig síðustu ár líkt og sjónvarp í herbergið sitt, iPod (enda ekki til nema fimm á heimilinu), nýja fartölvu (enda ekki nema þrjár á heimilinu) og sitthvað fleira, aðallega þó Nintendo DS tölvuleiki.
Ég hafði gaman af spjallinu, en það náði síðan nýjum hæðum í fyrradag þegar Anna sýndi mér og mömmu sinni PowerPoint-kynningu með myndum af því sem hana langaði að fá í jólagjöf.
Stelpan tók sig sem sagt til og útbjó PowerPoint kynningu og notaði vefinn til að sækja myndir af því sem hana langaði í. Að sjálfsögðu uppfyllti kynningin grunnskilyrði markaðsmanna, eins og að sleppa öllu „animation“ veseni og hafa ekki meira en þrjú atriði á hverri glæru.

Annars er allt á rólegu nótunum hjá okkur þessa dagana, við erum búin að vera í Þakkargjörðarfríi síðan á miðvikudagseftirmiðdag, íbúðin er þrifin og fín og í gær fór ég í búðarölt á hinum alræmda „Black Friday“ en þá opna flestar verslanir eldsnemma (5 eða 6) og eru með dúndurtilboð á öllum hlutum. Ég reyndar kom mér ekki á stað fyrr en um kl 9, en náði að kaupa því sem næst allt sem ég hugðist kaupa, m.a. jólagjafir fyrir Jennýju og börnin (og eins allt sem þarf síðustu 13 daga fyrir jól).