Sófi væntanlegur í kringum 15. febrúar

Fjölskyldan hélt í dag í sófakaupaleiðangur. Það er fastur liður um helgar að við förum á stað og reynum að leysa einhver af þeim fjölmörgu lausu endum sem eru á lífi okkar hér í Ohio. En vantar skrifborð, skrifborðsstóla, eldhúsborð og -stóla, sófaborð og geymsluhillur í kjallarann. En í dag var það sófinn.
Reyndar voru ég og Anna Laufey búin að vinna smá grunnvinnu og kynna okkur verslanir á Eastland Mall svæðinu, en það er sú verslunarmiðja sem er næst okkur hér í Bexley. Við hófum reyndar leiðangurinn á verslun sem sérhæfir sig í notuðum húsgögnum í vesturenda Columbus, en það skilaði litlu enda lítið ódýrari en ný.
Fyrsta stopp okkar í Eastland var í Sofa Express and more en þar var okkur tekið fagnandi og leidd um verslunina af sölukonunni Sandee. Hún var fljótt að ná nöfnunum okkar og ávarpaði okkur ýmist Djenní eða Halldor í hverri setningu eftir það. Við lögðum upp með að eyða um $1000 í sófasett og að kaupa nýtt eftir 5-7 ár. Sölukonan Sandee sá hins vegar hvert hugur okkar sveimaði og náði að sannfæra okkur um ágæti hornsófa með reclinersæti á sinn hvorum endanum. Þennan sófa bauð hún með micofiberáklæði og teflonvörn á tæpa $2000 fyrir utan skatt. Reyndar var sófinn í stærsta lagi fyrir stofuna okkar og rétt um tvöfalt dýrari en lagt var upp með, en þegar sölukonan nær að bera nafnið manns fram, næstum því rétt, hvað gerir maður ekki.
Eftir nokkrar bollaleggingar ákváðum við að hugsa málið, heimsóttum Frontroom Furniture, Macy’s Furniture og Oak Express, Sears og fengum okkur ís í Eastland Mall og ræddum fram og til baka hvað gera skyldi. Það fór síðan svo að við heimsóttum Sandee sölukonu á ný, létum sérpanta sófann og nú er bara að bíða og sjá.
Það er bara rétt vonandi að kaupendurnir að íbúðinni okkar lendi ekki í vandræðum með fjármögnun.