Tómas byrjaði að spila með Grænu drekunum fyrir réttum þremur vikum. Þeim gekk ágætlega og grúppan hans Tómasar náði jafntefli (eða vann). Síðan þá hefur ekki verið hægt að spila á grasvöllum CESA vegna mikilla rigninga, en vellirnir hafa verið algjörlega á floti og leikjunum síðasta laugardag og laugardeginum fyrir tveimur vikum var frestað.
Tómas er því búinn að vera mjög spenntur fyrir morgundeginum, en það er búið að ákveða að spila þrátt fyrir að vellirnir séu ekki búnir að jafna sig eftir rigningarnar enda eru mörg hundruð krakkar orðnir óþreyjufullir eftir að mótið haldi áfram. Þá er líka ætlunin að spila fyrri leikinn af þeim sem þurfti að fresta núna á sunnudaginn. Fyrir leikinn á morgun verður síðan liðsmyndataka sem þurfti að fresta fyrir tveimur vikum vegna veðursins.
Við þetta er að bæta að skólabróðir og félagi Tómasar í Grænu drekunum er að halda upp á afmælið sitt í hoppkastalahöll seinnipartinn á morgun. Dagskrá Tómasar um helgina er því verulega spennandi og þétt og fátt um frítíma.
Það er þess vegna fremur óheppilegt að rétt áðan fékk Tómas mikinn höfuðverk, kvartaði undan þreytu og borðaði fremur lítið í kvöldmat. Rétt eftir að hann lagðist upp í rúm kallaði hann svo á foreldra sína og ældi yfir pabba sinn. Við ætlum að sjá til í fyrramálið hvernig nóttin gengur, en það bendir fátt til þess í augnablikinu að helgardaskrá Tómasar verði óbreytt.