Fjör í fótbolta

Tómas og félagar í Grænu drekunum spiluðu að þessu sinni við ljósbláa liðið sem einhver sagði að kölluðu sig hvirfilbylina (ég er þó ekki alveg viss á því). Tómas spilaði að þessu sinni á B-vellinum og stóð sig með mikilli prýði.

Völlurinn var reyndar illa eða lítið sleginn og mjög mjúkur eftir rigningarnar, þannig að boltinn rúllaði fremur lítið, en baráttan var þeim mun meiri. Tómas skoraði fyrsta mark leiksins eftir frábæran undirbúning frá Bekku, sem sendi boltann inn fyrir vörn ljósbláa liðsins, þangað sem Tómas stóð einn og óvaldaður og átti ekki í miklum vandræðum með að koma boltanum í netið.

Eftir þetta einkenndist leikurinn af miklu miðjumoði, en Grænu drekarnir náðu þó að skora þrjú mörk til viðbótar (þar af Tómas eitt) áður en ljósbláu hvirfilbylirnir náðu að skora sitt fyrsta og eina mark. Leikurinn endaði því 4-1 fyrir Grænu drekunum og Tómas greinilega orðinn fullfrískur.