Hér rétt vestan við okkur, hinum megin við Alumn Creek er fremur vafasamt hverfi. Það vafasamt að ég, Anna og Tómas höfum ekki enn keyrt götuna okkar, East Main Street, til vesturs. Jenný hins vegar tekur strætó þar í gegn, þá daga sem hún tekur strætó í skólann. Hvað er svona vafasamt hefur reyndar ekki legið alveg ljóst fyrir. Húsin eru mjög hrörleg að sögn Jennýjar en í hverju hætturnar felast nákvæmlega er ekki alveg ljóst. Þannig deilir ríka fólkið (og við) í Bexley, Kroger-matvöruversluninni við Alumn Creek með íbúunum vestan við okkur.
Hins vegar var ljóst á forsíðu Columbus Dispatch í morgun að glæpamennirnir í götunni okkar eru óvenjukræfir, en í fyrrinótt brutust þjófar inn á bílastæðið við lögreglustöðina við 950 East Main Street og brutust þar inn í bíla lögregluþjónanna sem voru á vakt. Meðal þess sem þeir komust í burtu með var byssa sem ein löggan hafði haft í hanskahólfinu á bílnum sínum. Þessi þjófnaður reyndist þeim hins vegar ekki mikill happafengur og sjaldan að innbrot í bifreiðar hér í BNA hafi verið upplýst jafn fljótt og vel, enda vegið að starfsheiðri lögreglunnar, þar sem ekki aðeins að bílastæðið liggi upp á lögreglustöðinni, heldur var það verndað með girðingu og læstu hliði. En svona er þetta víst þarna fyrir vestan.