[google -3983996611374473189]
Author: Halldór Guðmundsson
Skórnir mínir
Íslandsferð í sumar
Ákvörðunin um að koma ekki til Íslands í sumar hefur nú verið endurskoðuð en rétt í þessu gekk ég frá kaupum á flugmiðum fyrir alla fjölskylduna til sumarleyfisparadísarinnar Íslands. Nú er ekki lengur flogið til Íslands frá Baltimore þannig að í stað þess að kaupa miðana til Íslands og miðana innanlands í BNA í sitt hvoru lagi, borgar sig nú að kaupa alla leið með Flugleiðum. Verðið fyrir Flugleiðafarið er reyndar ekki gefið, en flug innan BNA er fáránlega dýrt, sér í lagi á flugvellina sem Flugleiðir fljúga á. Á móti kemur að Flugleiðir fljúga í sumar tvisvar á dag til Boston, þannig að við þurfum ekki að fljúga með Tómas að næturlagi og gista þar sem við millilendum. En flugáætlun sumarsins er þannig að við fljúgum öll saman til Íslands frá Columbus í gegnum Boston og lendum í Keflavík kl. 23:40 (19:40 að Ohio-tíma) 9. júlí. Jenný heldur svo til baka kl. 10:30 þann 16. júlí og lendir í Columbus kl. 21:13 sama dag. Anna Laufey fer í Ölver 17.-23. júlí, vonandi næ ég að kíkja til Akureyrar með börnunum síðustu vikuna í júlí, ég og börnin förum svo á Sæludaga í Vatnaskógi 1.-4. ágúst og fljúgum til baka til Ohio 6. ágúst kl. 10:30 og lendum í Columbus 21:13 sama dag.
Skórnir mínir
Eftir að Jenný og Tómas héldu til Íslands í desember fór ég og keypti mér tvö skópör á útsölu í Dick’s Sporting Goods. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað að Jenný er sannfærð um að annað skóparið sé alveg ótrúlega ljót og algjörlega óásættanlegt að ég gangi um í því. Ég bendi á móti á að skórnir hafi verið á útsölu og séu einstaklega þægilegir og ég hef auk þess bent Jennýju á að það sé ekki eins og fólk taki eftir í hvernig skóm ég er. Alla vega er ég ekki vanur því að fólk komi til mín og ræði um klæðaburð minn og hvað þá skófatnað.
Þetta gæti þó verið að breytast, þannig sá fyrir nokkrum dögum einn prófessor í skólanum mínum ástæðu til að hrósa skónum mínum sem Jennýju finnst svona ljótir, og einn nemandi í skólanum hefur nokkrum sinnum nefnt skóna mína og hversu „grand“ þeir eru.
Þessi skóaðdáun samferðafólks míns náði þó líklegast hámarki í kvöld, þegar að einn kvöldstarfsmaður Kroger-matvöruverslunarinnar, eldri maður sem er alltaf á vakt við sjálfsafgreiðslukassana og ég hef aldrei heyrt segja annað en „signature“ og „whats wrong“ í þau tvö ár sem ég hef skroppið í búðina á kvöldin, sá ástæðu til að ræða við mig um skóna mína og spyrja hvort ég hefði keypt þá til að vera viss um að týnast ekki í snjóstormi.
Skólinn byrjar
Nú er skólinn minn byrjaður aftur eftir vorfrí. Nú taka við síðustu tveir mánuðir MALM-námsins, sem ættu að vera fremur þægilegir enda er ég aðeins í tveimur námskeiðum, annars vegar Care of Souls og hins vegar Transformational Leadership í MTSO (Methodist Theological School of Ohio). Ég mæti tvisvar í viku í Care of Souls (mán og mið 8:30-9:45) og einu sinni í viku upp í MTSO (mið 14-16:50). Halda áfram að lesa: Skólinn byrjar
Tómas, Elli og Anna
Leikið á Páskadag
[google 8259569368495783650]
[google -663413737725779711]
Páskadagur
Góð heimsókn
Síðustu daga höfum við haft góða gesti í heimsókn, þau Anton Orra, Ísabellu, Drífu og Heiðar. Við fórum í Chuck E. Cheese’s í afmæli Antons, prófuðum vatnaskemmtigarð, Jenný og Tómas tóku þau í dýragarðinn, við skoðuðum Franklin Park Conservatory, fórum fínt út að borða, ég og Heiðar skoðuðum flugvélasafn bandaríska hersins og við fórum í páskaeggjaleit á vegum Bexleybæjar svo fátt eitt sé talið.
Vorfrí hjá Ella og Önnu
Nú er farið að síga á seinni hluta meistaranámsins míns í leikmannafræðum, en útskrift er eftir 62 daga. Í síðustu viku lauk ég námskeiði um kirkjur í öðrum og þriðja heiminum og hvernig guðfræðiiðkun í Asíu, Suður-Ameríku og Afríku hefur áhrif, og mun hafa aukin áhrif á þróun kirkjunnar á komandi árum. Ég á því einungis eftir að ljúka tveimur námskeiðum, sem eru bæði hálfnuð. Annars vegar er ég að taka námskeið í guðfræðiskóla Methódista sem fjallar um breytingastjórnun í kirkjustarfi, þar sem við skoðum og ræðum strauma og stefnur í kirkjustarfi, ásamt því að skoða söfnuð og fjalla um hvernig og hvort sé hægt að þróa og bæta safnaðarstaf í samræmi við þær stefnur sem við höfum rætt. Hitt námskeiðið sem nú er hálfnað fjallar um sálgæslu og liggur áherslan á hlutverki sálgæslunar í kirkjulegu samhengi. Áhersla námskeiðsins er EKKI praktískar aðferðir heldur öllu fremur skilgreiningar á kirkjunni, þjónustu hennar og verkefni ásamt gagnrýnni umræðu um hvert hlutverk kirkjunnar sé þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu fólks.
En þetta er ekki forgangsverkefni í næstu viku, enda er ég í fríi ásamt Önnu fram á mánudaginn eftir viku. Reyndar þarf ég að fara í tíma á miðvikudaginn í breytingastjórnun, þar sem vorfríið í methódistaskólanum var í síðustu viku. En annars er þetta allt fremur rólegt núna.
Vorfrí í snjósköflum
Það er skrýið að vera í vorfríi þegar það eru stórir snjóskaflar útum allt. Snjórinn sem féll um helgina er hér sem sé ennþá þó að mikið hafi nú bráðnað og flestar götur eru orðnar auðar. Ég vona bara að við fáum ekki enn eitt kulda kastið þegar Drífa, Heiðar og börn koma í næstu viku. Okkur er farið að hlakka mikið til að fá Drífu og co. í heimsókn – og ekki skemmir fyrir að þau ætla að koma með páskaegg! (Er það ekki Drífa?)
Næstu daga ætla ég að hvíla lúin bein og sinna heimilsstörfum sem ekki komust að síðustu vikur vegna anna og veikinda. Anna Laufey hefur t.d. ekki fengið hreina sokka í nokkra daga – hún notaði mína í staðinn.
Skólablogg í lok vetrar
Nú er vetrarönnin loks á enda og ég byrja í vorfríi í dag. Þessi önn var ansi strembin, ég var í þremur kúrsum og í leskúrsi með leiðbeinandanum mínum auk kennslunnar. Halda áfram að lesa: Skólablogg í lok vetrar
ljósmyndir
Ég setti nokkrar nýjar myndir inn á Flickr, meðal annars þessa sem ég tók í rafmagnsleysi sem varð hér um daginn.
Sendur heim
Ég var rétt að koma mér fyrir á kaffihúsi í morgun, þegar ég tók eftir skilaboðum á símanum mínum. Leikskólinn hans Tómasar var að reyna að ná í okkur vegna hugsanlegrar augnsýkingar hjá Tómasi. Skilaboðin voru um að sækja hann tafarlaust. Ég hélt því af stað, hringdi í Jennýju og bað hana að tala við leikskólann og segja að ég væri á leiðinni og panta síðan tíma hjá lækni sem fyrst. Þetta gekk allt eftir og 65 mínútum eftir að leikskólinn lagði inn skilaboðin var Tómas kominn í skoðun hjá hjúkrunarfræðingi. Hann leyfði hjúkrunarfræðingnum ekki að skoða augað, svo hún fór eftir að hafa skráð niður tilskildar upplýsingar. Ég og Tómas lékum okkur svo að dóti í skoðunarherberginu og úr veskinu mínu í 25 mínútur þangað til læknir kom inn, leit í augun, sagði að þetta gæti hugsanlega sýking og lét okkur fá augndropaprufu sem ætti að duga fyrir 2 dropa í hvort auga kvölds og morgna í þrjá daga. Hún skrifaði svo upp á að Tómas væri ekki smitberi og mætti fara aftur í leikskólann á morgun.
Páskaegg komin í Whole Foods
Ég og Tómas fórum í Whole Foods Market í dag til að kaupa Skyr, rjóma, smjör og mjólk. Og ekki síður til að leita frétta af páskaeggjainnflutningi. Þegar við spurðum einn starfsmann um „Icelandic Easter Egg“ tengdi hann strax við einhverja vöru á lagernum sem á að setja upp í búðinni í kvöld eða á morgun, með fremur furðulegri gulri kanínu á toppnum. Annar starfsmaður reyndi að leiðrétta þann fyrsta og hélt því fram að þetta væri líklega frekar ungi en kanína, og spurðu mig hvort ég vissi hvort þeir væru að ræða rétta vöru. Ég hélt það nú, svo annar þeirra hljóp á bakvið og náði í 4 páskaegg nr. 2. Hann reyndar kom með einhverja athugasemd um ungann sem ég skyldi ekki, en alla vega – ég og Tómas fengum páskaeggin okkar.