Veikindum lokið að mestu

Nú eru öll börn komin á ról á þessu heimili, hitalaus og hamingjusöm. Reyndar fékk Anna eyrnabólgu og leið illa á miðvikudaginn, en við fórum til læknis á fimmtudaginn sem skoðaði í eyrað á henni í 20 sekúndur og ávísaði á sýklalyf sem hún tekur í eina viku (3 töflur í senn tvisvar á dag). Hann sagði að hún gæti samt vel verið í skólanum ef hún finndi ekki til.

Annars var síðasti kennsludagur Jennýjar í gær og lokavika framundan hjá henni. Ég á eftir tvær kennsluvikur fram að vorfríi, en Anna er í vorfríi á sama tíma og ég.

Veðurbreytingar

Einu sinni hélt ég að það væri bara veðrið á Íslandi sem sveiflaðist fram og tilbaka eins og hendi væri veifað. En svo er víst ekki. Í gær var 20 stiga hiti og vor í lofti, heiðskýrt og sól. Þegar ég leit út í morgun var byrjað að rigna og c.a. 7-8 gráður og núna er 2 stiga hiti og líkur á snjókomu í kvöld.

GTM sr og jr

Ein af skemmtilegustu myndunum sem ég tók meðan við vorum á Íslandi um jólin, var þessi úrvalsmynd af Guðmundi Tómasi Magnússyni og barnabarninu Guðmundi Tómasi Magnússyni inn á Hrísateigi.

Veikindafréttir

Nú eru allir loksins að skríða saman eftir vikulöng veikindi. Tómas fór í leikskólann á föstudaginn, en hefur verið lítill bógur síðan, ekki veikur en daufur í dálkinn. Anna er á leiðinni á Tennisæfingu núna og það er í fyrsta skipti sem hún fer út síðan á þriðjudag. Á morgun byrja samræmd próf í skólanum hjá henni og ágætt að hún sé komin á ról fyrir þau.

Annars er fátt að frétta hér í Bexleybæ, Jenný á eftir eina viku af kennslu en prófavika vetrarannar hefst eftir 8 daga. Hún fer síðan væntanlega á fullu í rannsóknarvinnu eftir það, bæði sem aðstoðarmaður og einnig í doktorsverkefni. Ég er í rúmlega 70% námi núna og var að ljúka við umsókn um framhaldsnám til post-graduate gráðu sem kallast Sacred Theology Master (STM), þar sem ég mun leggja stund á kirkjufræði (ecclesiology) og leiðtogakenningar. Þetta er eins árs nám, en þar sem ég þarf að ljúka nokkrum forkúrsum mun það taka a.m.k. 1 1/2 ár að ljúka því, ef ekki 2 ár.

Tækniblogg

Eftir að hafa haldið utan um ljósmyndir á hrafnar.net með eigin uppsetning á Gallery2 myndvinnslukerfinu á eigin vefsvæði frá upphafi. hef ég gefist upp á því að viðhalda og uppfæra öryggisvandamál og fært allar myndir yfir á flickr.com. Þetta þýðir að sumar af eldri myndunum eru ekki lengur aðgengilegar á vefnum.
Til að skoða myndirnar er áfram smellt á hnappinn hér fyrir ofan.

Veikindi

Þessa dagana keppast fjölskyldumeðlimir um að skora sem hæst á Braun ThermoScan-mælinum okkar. Tómas náði þannig 39,4 á mánudaginn með þeim afleiðingum að hann lá í móki í sófanum í stofunni meira eða minna allan daginn, hann hefur rokkað nokkuð síðan en að mestu verið í 38 eitthvað. Anna var fremur slöpp í gær, en fór í skólann, en í dag hefur hún náð að slá metið hans Tómasar síðan á mánudaginn og náði 39,6 rétt í þessu, þrátt fyrir að hafa fengið tvær Tylenol (160mg) fyrir 20 mínútum. Ég og Jenný höfum ekki  náð upp í 39 skalann enn, höfum haldið okkur á milli 37,7 og 38,5.

Það verður væntanlega ekki mikið um leikskóla hjá Tómasi í þessari viku, og ólíklegt að Anna fari í skólann heldur. Ég og Jenný reynum á hinn bóginn að komast í skólann þegar tækifæri gefst, þó Jenný hafi misst meira úr í þessari viku enn ég.

Nýtt rúm

Ég og Tómas Ingi fórum í gær í IKEA leiðangur til að kaupa rúm í stað rimlarúmsins sem kappinn braut. IKEA hefur að vísu ekki enn opnað í Ohio, þannig að við feðgar héldum sem leið lá til Pittsburg í Pennsylvaníu en skv. MapQuest tekur það 2 klst og 59 mínútur að keyra í IKEA. Við fórum af stað um hádegi og ég treysti á að Tómas myndi taka lúrinn sinn sem hann gerði. Ég stöðvaði einu sinni til að taka bensín og einu sinni til að laga Tómas til í stólnum og náði í IKEA á 3 klst sléttum, enda fylgdi ég umferðarhraða og var meira og minna með Cruise Control á 67-68 mílum nema í Vestur Virginía þar sem má keyra á 70 mílna hraða, þar fór ég ögn hraðar.

Tómas tók verkefnið alvarlega þegar við komum í IKEA og prófaði öll barnarúmin í Barna-IKEA öðrum viðskiptavinum til mikillar skemmtunar. Annars fórum við og fengum okkur kaffitíma á IKEA veitingastaðnum þegar við komum og þegar við vorum að fara komum við aftur við á veitingastaðnum og fengum okkur kvöldmat. Við yfirgáfum IKEA með nýtt KURA-rúm, eggstól, trélest, pönnur, herðatré, bleik Trofast box, hnífasegul, kryddhillu, Ballerinu-kex og sitthvað fleira eftir rúma 4 klst og keyrðum sem leið lá í gegnum Vestur-Virginíu og til Columbus. Þar sem það var komið myrkur fór ég aðeins hægar yfir og við vorum komnir heim eftir þrjár klukkustundir og 10 mínútur, þar af hafði Tómas sofið rúmlega tvo tíma.

Ég og Anna settum síðan rúmið hans Tómasar saman í morgun og óhætt að segja að hann sé komin með nýtt herbergi. Enda er rúmið nýja miklu mun stærra og meira um sig en rimlarúmið.

Svo því sé haldið til haga. Ég mældi eyðsluna á bílnum í ferðinni og hún reyndist vera 28,5 mílur á gallon eða 8,25 lítrar á 100 km.

Ekki aðeins minnugur …

Tómas hefur ekki einvörðungu gott minni heldur er stefnufastur, ákveðinn og hefur ágæta stjórn á hreyfingum. Þannig tók hann sig til í kvöld þegar hann átti að fara að sofa og tók niður eina hlið á rimlarúminu sínu. Þetta gerði hann á mjög yfirvegaðan hátt, án þess að brjóta upp úr einni einustu spýtu og við áttuðum okkur ekki á því hvað var á seyði fyrr en hann kallaði á okkur til að sjá handbragðið. Ég efast samt um að við höfum getu til að setja rúmið saman rétt aftur, þannig að Tómas fór að sofa í kvöld í rúmi sem er ekki full samansett.

Ég á von á að við nýtum tækifærið og kaupum nýtt rúm næstu daga, fyrst Tómas vill losna við rimlarúmið.

Minnugur Tómas Ingi

Í gær fékk ég tvær staðfestingar á því að það er ekkert að minninu hjá Tómasi Inga.

Þegar Dabba heimsótti háskóla-campusinn í Janúar þá festi hún kaup á gráum jogging buxum merktum OHIO STATE og var í þeim heima við. Ég öfundaði hana mikið af þessum þægilegu buxum og í gær sló ég til og keypti alveg eins. Ég skellti mér í þær strax og ég kom heim og um leið bendi Tómas Ingi á þær og sagði: „Ohio State Dabba“. Halda áfram að lesa: Minnugur Tómas Ingi

Íslandsferð og Dabba frænka

Um Íslandsför:
Við áttum æðislega daga á Íslandi. Þegar Elli og Anna Laufey komu fluttum við í kjallarann hjá Guðrúnu Laufeyju og vorum þar í góðu yfirlæti það sem eftir lifði ferðar. Tómas Ingi og Benni urðu góðir vinir og Tómas Ingi segir nú reglulega að Benni sé að fljúga til okkar („Benni húga, Benni húga“). Við nutum þess að hitta fjölskyldu og vini og við erum þakklát hvað við eigum marga góða að á Íslandi. Halda áfram að lesa: Íslandsferð og Dabba frænka

Tvö á Íslandi, tvö í BNA

Við Tómas Ingi komum til Íslands á fimmtudagsmorgun. Ferðin gekk vel, Tómas Ingi var rosalega duglegur og góður alla leiðina. Hann lék sér með bílana sína á Baltimore-flugvelli og svaf svo alla leiðina í flugvélinni til Íslands. Hann var í bílstólnum sínum í flugvélasætinu sem mér fannst mikill munur. Ókosturinn var þó að bílstóllinn er þungur og það var erfitt að dröslast með hann á flugvöllunum. Við lentum svo í hávaðaroki í Keflavík en lendingin gekk bara vel. Við vorum heppin að vera ekki degi seinna á ferðinni því þá var ekkert flogið vegna óveðurs. Halda áfram að lesa: Tvö á Íslandi, tvö í BNA

Ísland í morgunútvarpinu

Þegar við Tómas Ingi vorum á leiðinni í skólann í gærmorgun og Tómas var búinn að hlusta á „Bambalela“-lagið (hress sálmur frá Suður-Afríku sem er óaðskiljanlegur hluti af morgun rútínunni) þá stillti ég útvarpið í bílnum á npr útvarpstöðina hér í Columbus. Þulurinn var í miðri sögu og sagði eitthvað um jökul og heita hveri. Þá vaknaði auðvitað áhuginn hjá mér og viti menn þetta var innslag frá Íslandi. Mikið var nú notalegt að fá sögu að heiman og heyra ensku talaða með almennilegum íslenskum hreim. Það mátti meira að segja heyra íslensku í bakgrunninum. Innslagið er um fólk sem á hverju ári mælir hreyfingar Hofsjökuls og má lesa og heira á vefsíðu npr.