Ég og Tómas Ingi fórum í gær í IKEA leiðangur til að kaupa rúm í stað rimlarúmsins sem kappinn braut. IKEA hefur að vísu ekki enn opnað í Ohio, þannig að við feðgar héldum sem leið lá til Pittsburg í Pennsylvaníu en skv. MapQuest tekur það 2 klst og 59 mínútur að keyra í IKEA. Við fórum af stað um hádegi og ég treysti á að Tómas myndi taka lúrinn sinn sem hann gerði. Ég stöðvaði einu sinni til að taka bensín og einu sinni til að laga Tómas til í stólnum og náði í IKEA á 3 klst sléttum, enda fylgdi ég umferðarhraða og var meira og minna með Cruise Control á 67-68 mílum nema í Vestur Virginía þar sem má keyra á 70 mílna hraða, þar fór ég ögn hraðar.
Tómas tók verkefnið alvarlega þegar við komum í IKEA og prófaði öll barnarúmin í Barna-IKEA öðrum viðskiptavinum til mikillar skemmtunar. Annars fórum við og fengum okkur kaffitíma á IKEA veitingastaðnum þegar við komum og þegar við vorum að fara komum við aftur við á veitingastaðnum og fengum okkur kvöldmat. Við yfirgáfum IKEA með nýtt KURA-rúm, eggstól, trélest, pönnur, herðatré, bleik Trofast box, hnífasegul, kryddhillu, Ballerinu-kex og sitthvað fleira eftir rúma 4 klst og keyrðum sem leið lá í gegnum Vestur-Virginíu og til Columbus. Þar sem það var komið myrkur fór ég aðeins hægar yfir og við vorum komnir heim eftir þrjár klukkustundir og 10 mínútur, þar af hafði Tómas sofið rúmlega tvo tíma.
Ég og Anna settum síðan rúmið hans Tómasar saman í morgun og óhætt að segja að hann sé komin með nýtt herbergi. Enda er rúmið nýja miklu mun stærra og meira um sig en rimlarúmið.
Svo því sé haldið til haga. Ég mældi eyðsluna á bílnum í ferðinni og hún reyndist vera 28,5 mílur á gallon eða 8,25 lítrar á 100 km.