Prófavika framundan

Nú fer önninni hjá mér alveg að ljúka. Ég sit nú í tölvuveri Tölfræðideildarinnar og bíð eftir að galdraforritið Merlin skili af sér niðurstöðum. Ég er að keyra stikalausa tengigreiningu (non-parametric Linkage Analysis) á litning númer 4 og yfir 140 ættartré með nokkrum skjúklingum. Forritið er nú ekki eins mikið galdraforrit og nafnið gefur til kynna því þetta tekur alveg óratíma (nema að verið sé að vísa í taugaveiklaða Merlin í Shrek 3?). Halda áfram að lesa: Prófavika framundan

Leikdagur

 Ég og Jenný ákváðum að fá fólk til að passa 2-3 laugardaga í haust og gefa þeim í staðinn miða á fótboltaleik (svipað rugby) með OSU, en liðið er nú talið það besta í háskólafótboltanum í BNA. Þrátt fyrir að leikvöllurinn taki ríflega 100.000 áhorfendur er alltaf uppselt og mjög erfitt að fá miða fyrir aðra en velríkt fólk og stúdenta í OSU. Um síðustu helgi kom Nick og passaði og til stóð að hann fengi miða dagsins í dag, Michigan State – OSU. Nick þurfti hins vegar að fara suður á bóginn um helgina til að vera við einhvern fjölskylduviðburð og neyddist til að afþakka miðana. Pabbi einnar stelpunnar í Önnu vinahóp bauðst til að kaupa miðana á yfirverði ef við værum í vandræðum og líklega hefðum við þannig getað greitt fyrir alla miða haustsins. Við ákváðum að nota tækifærið og verðlauna Önnu Laufeyju fyrir frábæran árangur síðustu vikna og bjóða henni að fara með mömmu sinni á völlinn. Fyrir 45 mínútum héldu þær mæðgur af stað, en áður þær keyrðu burt náði ég mynd.

3304

Þegar þetta er skrifað er rúmlega 1 klst í leik og væntanlega eru þær mæðgur komnar á háskólasvæðið og eru að brjóta sér leið að vellinum. Ég hins vegar bíð eftir að leikurinn hefjist hér á ABC.

Fleiri nýjar myndir

Stúdentaráð

Frægðarljómi Önnu Laufeyjar heldur áfram að skína. Hún var að koma heim rétt í þessu og sagði mér að hún hefði í dag verið kosin í „Student Council“ eða stúdentaráð í Cassingham Elementary. En einn fulltrúi frá hverjum bekk er í ráðinu.

Allar kvalir yfirstaðnar

Ég fékk eftirfarandi bréf í pósthólfið mitt í skólanum í gær:

Dear Jenny,

On behalf of the Graduate Studies and Qualifier II Examination Committees, I take pleasure in notifying you that you have passed the Qualifier II Examination. We congratulate you on your performance and wish you the best for the completion of you Ph.D. studies in the Statistics Department.

Með öðrum orðum, ég náði seinna „qualifier“ prófinu mínu.

Nú get ég loksins farið að snúa mér að því sem ég kom hingað til að gera :), að skrifa doktors ritgerð. Ég á enn eftir að taka nokkra kúrsa en flestir þeirra verða sjálfvaldir. Ég mun á næstu mánuðum velja mér leiðbeinanda og finna út hvað mig langar að skrifa um. Næsti stóri áfangi verður „Candidacy Exam“ sem verður bæði skriflegt og munnlegt próf, en það verður bara á því sviði sem ég mun skrifa ritgerðina um. Í lok náms mun ég svo verja ritgerðina. Þetta mun vonandi ekki taka meira en þrjú ár í viðbót.

Blómagarður Önnu

Árlega eru valin listaverk nokkurra nemenda í Bexleybæ til sýningar í Bexley High School á Bexley City School’s All District Art Show. Sýningin er opin almenningi frá 22. október til 20. nóvember. Í gær kom bréf í pósti frá Bexley City School District til The Halldorsdottir Family. Þar stendur m.a.:

This exhibit is a celebration of children and their art! It is truly an honor that your child has been selected as one of those outstanding student artists representing their school in this event.

Þá kemur fram í bréfinu að verkið Blómagarður (e. A Flower Garden) eftir Önnu Laufeyju hafi verið valið og okkur boðið að vera við opnun sýningarinnar miðvikudaginn 24. október. Ég hef reyndar lengi vitað að Anna hefði meiri listhæfileika en ég, enda hefur hún hlotið viðurkenningu fyrir listsköpun á Íslandi, en það er samt alltaf gaman að fá svona bréf frá skólanum.

Íslendingar alstaðar

Ég komst að því í dag að einn nemandi minn í tölfræði 135 hér í OSU er hálf íslenskur! Hann á íslenska mömmu, hefur farið oft til Íslands og á fullt af ættingjum í Garðabæ. Hann talar ekki íslensku en skilur hana svo ég spjallaði aðeins við hann á íslensku og hann svaraði á ensku. Svona er heimurinn lítill.

Myndavél

3293 Jenný hefur nokkrum sinnum nefnt að það væri gaman að eiga litla myndavél sem væri fljótlegt og auðvelt að grípa í. En myndavélin mín er ekki sú handhægasta. Þar sem Jenný var í QII prófum og þurfti verðlaun fyrir og amazon.com var með útsölu á rafmagnstækjum greip ég tækifærið í síðustu viku og pantaði litla og netta vél. Þar sem ég hef verið mjög hrifinn af Panasonic vélinni minni með Leica-linsunni, ákvað ég að kaupa aftur Panasonic, nema í þetta sinn mun minni græju sem passar vel í vasa eða veski og er litlu stærri en gsm sími. Myndavélin er með Leica-linsu eins og fyrri vélin og virðist ætla að standa undir væntingum, en hún kom í hús í dag. Jenný prófaði vélina með því að mynda mig og Tómas.

Tómas lasinn

Þegar Jenný kom til Sullivan fjölskyldunnar í kvöld eftir tennisæfingu lá Tómas sofandi á stofugólfinu þeirra, með hita og mjög slappur. Jenný dreif hann heim og upp í rúm og ljóst að kappinn fer ekki í leikskóla á morgun.
Ég er því búin að senda prófessorunum mínum bréf með tíðindum af Tómasi og upplýsingum um að ég verði ekki í tímum á morgun, nema reyndar í Nýja Testamentisfræðum, en þar hyggst ég mæta í kvöldtíma. Þetta er svo sem ekki besta mál, en gæti verið mun verra. Ég og Tómas munum því væntanlega sitja saman í sófanum í stofunni á morgun og horfa á Nemo og Cars til skiptis fram eftir degi.

Kvöl II

Það hefur ekki heyrst frá mér lengi hér á hrafnar. Ég hef líka verið hálf utan við mig undanfarnar vikur. Þannig er að í fyrramálið og á laugardagsmorgun mun ég taka „qualifier“ próf númer tvö, sem ég hef kosið að þýða „kvöl II“. Það hefur verið erfitt að einbeita sér að próflestri í sumar og hef ég það eitt mér til varnar að hér hefur verið yfir 30 stiga hiti (Celsíus) og mikill raki í næstum allt sumar. (Í dag var sem betur fer ekki nema 20 stig.) En nú er ekkert vit í að læra meira, best að slappa bara af og fara snemma að sofa.

Stærðfræðin hjá Önnu

Ég minnist þess að þegar ég var 8 ára þá lærðum við reikning í skólanum. Við þurftum að læra margföldunartöfluna, okkur var kennt um víxlreglur í samlagningu og frádrætti og hálfum vetri var eitt í að gera okkur hæf í að draga frá tveggja stafa tölur, allt gagnlegt og spennandi. Anna Laufey lærir hins vegar stærðfræði nú þegar hún er orðin 8 ára. Þannig er hún með heimadæmi nokkrum sinnum í viku (eitthvað sem ég vissi ekki hvað var fyrr en í MR) og eitt dæmið sem var í heimadæmaskammtinum þessa helgi hljóðaði á þessa leið:

36-y = (60/4) x (y/3)

Finndu y.
Finndu samtölu dæmanna.

Anna þurfti reyndar smá hjálp við að leysa dæmið, enda ekki enn örugg á deilingarreglum, en svona breytast kröfurnar.